Hreyfing á vinnutíma
Einstaklingar verja um helmingi vökutímans í vinnu og liggur því beinast við að reyna að koma hreyfingu að innan þess ramma. Það að stunda hreyfingu á vinnutíma leiðir oftar en ekki til betri líðanar og meiri skilvirkni í starfi.
Bresk rannsókn frá 2008 leiddi í ljós að starfsmenn sem voru með aðgang að og notuðu líkamsræktaraðstöðu á vinnutíma voru skilvirkari og fóru ánægðari heim að loknum vinnudegi þá daga sem þeir notuðu aðstöðuna en aðra daga. Önnur rannsókn frá 2013 sýndi að starfsfólk upplifir samstundis bætt hugarstarf í kjölfarið á æfingu. Æfingin þarf ekki að vera löng, stutt æfing eins og 15 mínútur á líkamsræktarhjóli skilar árangri. Þetta gæti bent til þess að það sé jafnvel betra upp á athygli og skilvirkni að æfa á vinnutíma í stað þess að æfa fyrir eða eftir vinnu.
Einstaklingar sem æfa á vinnutíma upplifa meiri skilvirkni og taka færri veikindadaga. Að auki hefur það góð áhrif á andlega heilsu að fá hlé á miðjum vinnudegi frá streituvöldum sem tengjast starfinu.
En hreyfing á vinnutíma getur einnig leitt af sér ávinning í stærra samhengi. Heilbrigðisstofnanir og stjórnendur í Bretlandi hafa átt samtal um hvort gera ætti hana að skyldu inn í vinnudaginn til að sporna við lífsstílstengdum heilsufarsvandamálum í samfélaginu. Sem dæmi má nefna að talið er að meira en 20 milljónir Breta hreyfi sig nær ekkert og kostnaður breska heilbrigðiskerfisins (NHS) við óvirkan lífsstíl er metinn á um 1,2 milljarð punda á ári.
Mælt er með lotuþjálfun (85-95% af hámarks púlsi) fyrir störf sem krefjast þess að standa eða ganga mikið. Fyrir líkamlega erfiða vinnu er mælt með styrktarþjálfun fyrir stóru vöðvahópana, um það bil 60% af hámarksþyngd. Styrktarþjálfun getur einnig dregið úr verkjum í starfi ásamt því að fyrirbyggja að einstaklingur upplifi verki tengda starfi. Mælt er með að metnar séu þarfir hvers og eins vinnustaðar með tilliti til líkamlegra krafna í starfi. Hægt er að skipta þjálfuninni upp, til dæmis í 5x12 mínútur eða 3x20 mínútur. Mikilvægt er að hafa rétta stignun (e. progression) á æfingunum og ætla sér ekki um of.
Sjá meira um hreyfingu á vinnutíma í kaflanum Vinnan og hreyfing.