Stoðkerfið
Verkir eru alltaf raunverulegir
Sara Lind Brynjólfsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK.
Þegar einstaklingur verður fyrir miklum áverka er ekki óalgengt að hann finni ekki fyrir verkjum fyrr en eftir á eða þegar hættan er liðin hjá. Að sama skapi getur það gerst að fólk fái verki þó engin skýring finnist á þeim. Undanfarin ár hafa verkir verið töluvert rannsakaðir og skilningur okkar aukist í takt við það.
Nú vitum við að
- Verkur er verndandi viðbragð.
- Verkur orsakast af flókinni samsetningu líffræðilegra, sálrænna og félagslegra þátta.
- Félagslegir og sálrænir þættir geta haft þau áhrif að verkur er enn til staðar þrátt fyrir að líkaminn sé búin að jafna sig.
- Þeim mun lengur sem verkir eru til staðar, þeim mun viðkvæmara verður taugakerfið. Líkaminn þarf þá minna áreiti til að upplifa verk.
- Eina leiðin til að vita að einhver sé með verki er ef viðkomandi segir þér það. Verkir sjást oft ekki utan á fólki.
- Þegar við upplifum ógn getur það leitt til þess að verkir aukist. Ógnir geta verið tilfinningar og/eða aðstæður.
Hingað til hefur fókusinn verið á að finna orsökina fyrir verkjum og bregðast við henni með meðferðum. Þetta geta þýtt mánuðir, ár og jafnvel áratugir í leit að ástæðu og á meðan bíður vonin endurtekið skipbrot. Í dag erum við með betri skilning á verkjum og meðferðum, sem getur auðveldað einstaklingi með verki að auka við virkni og hreyfingu og sjá jafnvel kosti þess að hitta sálfræðing ef þörf er á.
Allir verkir eru raunverulegir, burt séð frá því hvað er að valda þeim. Það sem kemur fólki þó mest á óvart er að hægt er að vera með verki þrátt fyrir að það séu engar vefjaskemmdir til staðar. Það er að segja að það séu engar skemmdir á vöðvum, sinum, taugum eða neinu öðru sem viðkemur líkamanum. Mögulega voru skemmdir þarna einhvern tímann, en verkurinn er samt viðvarandi löngu eftir að skemmdirnar hafa jafnað sig.
Tilgangur verkja er að vernda, hann er til staðar til að verja líkamann fyrir hættu en ekki til að skýra ástand líkamans. Þar af leiðandi þarf ekki að vera bein tenging á milli verkja og vefjaskemmda.
Langvinnir verkir geta leitt af sér viðkvæmara taugakerfi og líkaminn þarf þá minna áreiti til að upplifa verk, þá framkallast jafnvel verkur í athöfnum sem líkaminn þarf í raun á að halda, eins og til dæmis við hreyfingu.
Hægt er að endurþjálfa viðkvæmt taugakerfi með því að auka varlega kröfurnar, hvert þrep verður þá að vera nóg til að auka aðlögðun en ekki of mikið til að valda verkjakasti. Það að framkvæma hreyfingar eða æfingar sem valda viðráðanlegum verk, en ekki verkjakasti, mun hjálpa við að endurþjálfa viðkvæmt taugakerfi.
Með þolinmæði og þrautseigju er hægt að endurþjálfa kerfið og mikilvægt er að fagna öllum litlum sigrum.
Það eru sterkar vísbendingar um að besta leiðin til að koma í veg fyrir að upplifa langvinna verki sé að sinna fyrirbyggjandi þáttum. Fyrirbyggjandi aðferðir eru þættir sem byggja á virkni og eru sjálfseflandi, auka sjálfstraust, trú og þekkingu svo hægt sé að taka eigin stjórn. Þá er hægt að sjá að miklu leiti sjálfur um sína eigin „endurhæfingu“. Þá er einnig hugsunin að við sinnum okkur sjálf, í stað þess að einhver annar “lagi” okkur þegar eitthvað kemur upp. Vissulega getur þó oft verið þörf á aðkomu fagaðila á borð við sjúkraþjálfara til að vísa okkur réttu leiðina og efla okkur í því að þora að hreyfa okkur.
- Grein unnin að mestu leiti úr efni frá pain revolution.
ACT hugmyndafræðin
Rúnar Helgi Andrason, yfirsálfræðingur á verkjasviði Reykjalundar.
Hugmyndafræði ACT
Aukinn sálrænn sveigjanleiki
Samþykki/gangast við
Samþykki/gangast við og skapa rými fyrir allar upplifanir, hvort sem þær koma innan frá eða utan frá, séu jákvæðar eða neikvæðar. Að gangast við óþægilegum tilfinningum, hvötum og skynupplifunum í stað þess að reyna að bæla þær, ýta þeim í burtu eða streitast á móti (ströggla). Þetta felur í sér að taka eftir þeim upplifunum sem birtast hverju sinni án þess að reyna að breyta þeim. Þetta geta verið tilfinningar, minningar, ytri aðstæður, hegðun annars fólks og heilsufarsleg einkenni svo eitthvað sé nefnt. Ekkert af þessu höfum við stjórn á, nema að takmörkuðu leyti, en með því að gangast við upplifunum okkar opnast möguleiki á vali gagnvart því hvernig við ætlum að bregðast við.
Aftenging
Aftenging og ná ákveðinni fjarlægð á hugsanir sínar með því að taka eftir óhjálplegum hugsunum, viðhorfum, minningum án þess að láta þessi hugarferli ráða því sem er gert hér og nú. Þetta felur í sér að horfa á hugsun sína í stað þess að horfa frá hugsun sinni. Oft verðum við svo gagntekin af hugsunum okkar að við missum tengslin við annað í kringum okkur. Með aftengingu náum við að sjá að hugsun er bara hugsun, hvort sem hún er ljúf eða sár.
Tenging við líðandi stundu
Tenging við líðandi stundu og tengjast því sem er að gerast hér og nú og mæta því með opnum huga og af forvitni. Mannshugurinn ver oft miklum tíma í að hafa áhyggjur af framtíðinni og velta sér upp úr fortíðinni og hefur þetta oft mikinn kostnað í för með sér þar sem við framkvæmum oft ekki mikilvægar athafnir hér og nú fyrir vikið. Nálgun núvitundar gengur út á að gangast við, eða vera meðvitaður um, það sem er að gerast á líðandi stundu og taka þeirri upplifun með opnum huga og af áhuga. Núvitund þýðir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær eða ýta þeim í burtu.
Íhugandi upplifun á sjálfum sér
Íhugandi upplifun á sjálfum sér og læra að fylgjast með sjálfum sér og skoða nánast utan frá. Læra að við erum ekki hugsanir, tilfinningar eða ákveðnar ímyndir sem við höfum af okkur sjálfum. Þetta felur í sér aukna sjálfsvitund.
Gildi
Gildi varða það sem þig langar allra mest að standa fyrir sem manneskja, hvernig þú vilt haga þér í daglegu lífi. Þau eru ekki um það sem þig langar í eða þann árangur sem þú vilt ná heldur varða þau ákveðna hegðun sem þú sýnir. Ef þú ert meðvitaður um þín gildi ná þau að vera leiðandi í lífinu og benda á hvað það er sem skiptir raunverulegu máli. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að gildi eru eitthvað sem við náum aldrei fyllilega heldur eitthvað sem við lifum í samræmi við.
Markviss hegðun
ACT er mjög atferlismiðuð nálgun og leggur mikla áherslu á að fólk geri breytingar á lífi sínu. Þær breytingar skilgreinast hinsvegar í samræmi við gildi fólks og leiða þannig til þess að lífið verður innihaldsríkara. Fólk er því hvatt til að gera breytingar á hegðun sinni í samræmi við sín gildi og þannig ná að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir verki og vanlíðan sem eru í sjálfu sér hluti af lífinu.
10 atriði sem þú þarft að vita um bakið þitt
- Bakið þitt er sterkara en þig grunar.
Bakverkir eru mjög algengir. Þeir eru sjaldnast hættulegir en geta verið hamlandi og valdið áhyggjum. Samkvæmt rannsóknum nær fólk sér í 98% tilfella tiltölulega fljótt og margir án meðferðar. - Myndgreining er sjaldnast nauðsynleg og getur gert meira ógagn en gagn.
Að sjá fullkomlega eðlilegar breytingar á hrygg getur fælt fólk frá athöfnum sem stuðla að bata svo sem líkamsþjálfun og hreyfingu í daglegu lífi. - Forðastu rúmlegu, haltu áfram að vinna og náðu smám saman upp eðlilegri virkni.
Í upphafi bakverkjatímabils er mögulega hægt að létta á verk með því að forðast ákveðnar athafnir. Vísindarannsóknir sýna að langvarandi hvíld og hreyfingarleysi fólks með mjóbaksverki leiði til aukinna verkja, færniskerðingar, hægari bata og lengri fjarveru frá vinnu. - Ekki hræðast að beygja eða lyfta.
Því er oft haldið fram að athafnir eins og að beygja sig og að lyfta hlutum séu orsakir bakverkja. Þó að meiðsli geti átt sér stað við að lyfta einhverju upp á óvenjulegan hátt þá er líklegast um ofálag eða tognun að ræða. - Líkamsþjálfun og virkni draga úr og fyrirbyggja bakverki.
Það hefur sýnt sig að líkamsþjálfun er mjög gagnleg til að takast á við bakverki og er einnig árangursríkasta aðferðin til að fyrirbyggja endurtekin verkjaköst. Byrjaðu rólega og byggðu upp magn og ákefð æfinga. Ekki hafa áhyggjur af því að valda neinum skemmdum. - Verkjalyf munu ekki flýta fyrir bata þínum.
Það eru engar sterkar vísbendingar fyrir gagnsemi verkjalyfja og þau flýta ekki fyrir bata. - Skurðaðgerðir eru sjaldan nauðsynlegar.
Til lengri tíma litið er árangur bakaðgerða að meðaltali ekki betri en annarra úrræða svo sem æfingameðferða. Þess vegna ætti meðferð sem felur í sér líkamsþjálfun og virkni alltaf að vera fyrsta val. - Fáðu góðan svefn.
Á undanförnum árum hefur mikilvægi svefns komið betur í ljós hjá þeim sem eru að eiga við bakverki. Betri svefn leiðir til minni streitu og aukinnar vellíðan. Það hefur þau áhrif að minni næmni verður fyrir áreiti verkja og þú átt auðveldara með að takast á við þá. - Þú getur verið með bakverk án vefjaskaða eða meiðsla.
Margt getur orsakað bakverki og oftar en ekki er það samspil líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta, ásamt heilsufari og lífsstíl. - Ef þér batnar ekki, leitaðu aðstoðar og hafðu ekki áhyggjur.
Ef bakverkur er enn til staðar eftir 6-8 vikur skaltu hafa samband við heimilislækni eða sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarar veita sérhæfða ráðgjöf, leiðbeiningar og meðferð við bakverkjum. Tilgangurinn er að minnka líkur á endurteknum verkjum og um leið bæta heilsufar þitt og vellíðan.
Sjá nánari umfjöllun í bæklingnum frá Félagi sjúkraþjálfara.
Vöðvabólga
En af hverju skildu vöðvar spennast upp? Jú það getur gerst ef við t.d. venjum okkur á að vinna í tölvu án þess að huga að því að hafa nægan stuðning undir handleggjum svo herðavöðvar nái að slaka á. Eða ef við erum sífellt að lúta niður með höfuðið annað hvort við tölvuvinnu eða í farsíma en þá getur skapast mikil spenna í aftanverðum hálsvöðvum. Streita getur líka haft þau áhrif að vöðvaspenna skapist.
Besta ráðið við spenntum vöðvum er að skoða vel venjur okkar og líkamsbeitingu og stunda reglulega hreyfingu sem kemur blóðflæðinu af stað og þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að gera léttar æfingar á vinnutíma. Ef vöðvaspennan er farin að valda miklum verkjum sem við ráðum ekki við er um að gera að leita til sjúkraþjálfara sem getur gefið góð ráð.
Bakverkir
Lífstíll hefur mikil áhrif á bakheilsu og regluleg hreyfing, kjörþyngd og reykleysi minnka líkur á bakverkjum.
Hér til hliðar má sjá ítarefni tengt bakverkjum og réttri líkamsbeitingu.
Stoðkerfisverkir
Sara Lind Brynjólfsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK.
- Staðbundnir eða útbreiddir verkir sem geta versnað við hreyfingar
- Verkir eða stífleiki í líkamanum
- Þreyta
- Svefnvandamál
- Vöðvakippir
- Máttminnkun og dofi
- Sviðatilfinning í vöðvum
Álagstengdir stoðkerfisverkir
Atriði sem gott er að hafa í huga við tölvuvinnu:
- Mikilvægt er að stilla skrifborð, stóla og tölvuskjái þannig að sem minnsta álag sé á stoðkerfið.
- Standa reglulega upp og breyta um stöður.
- Standa og sitja til skiptis við skrifborð.
- Hafa mús og lyklaborð nálægt líkamanum.
Einnig gæti það verið líkamsstaða og beiting við líkamlega erfiða vinnu:
- Í vinnu þar sem mikið þarf að lyfta þungum hlutum er brýnt að halda hlutunum nálægt sér og að mjaðmir og axlir snúi í sömu stefnu og hreyfist í takt.
- Þar sem mikið er um endurteknar hreyfingar skiptir miklu að viðhalda góðri stöðu og að jafnt álag sé í báðar áttir ef hægt er.
Hreyfing og álagstengdir stoðkerfisverkir
- Létt hreyfing (rólegur göngutúr / hjólatúr / sund).
- Draga tímabundið úr því álagi sem mögulega gæti verið að valda verknum.
- Huga að góðri líkamsstöðu og líkamsbeitingu.
- Losa létt um stífa vefi með nuddbolta eða nuddrúllu.
- Leita aðstoðar hjá fagaðila.
- Stunda reglulega styrktar- og þolþjálfun.
- Huga að og breyta reglulega um líkamsstöðu í vinnu og daglegu lífi.
- Svefn í 7-8 klukkustundir á nóttu hjálpar til við að draga úr bólgum.
Að hlífa sér of mikið getur hindrað bata
Óskar Jón Helgason, sérfræðingur hjá VIRK.
Ráðgátan um bakverk
Að skilja verkjaupplifun
Slit í hrygg og sprungur í brjóskþófum milli hryggjarliða er eðlilegur hluti þess að eldast og jafn sjálfsagður og hrukkur í kringum augu.
Ólíkt því sem margir halda er sjaldgæft að bakverkir hefjist við að verið sé að lyfta mjög þungum hlut eða undir óeðlilega miklu álagi. Í einungis 5% tilvika koma fyrstu einkenni brjóskloss fram við að lyfta þungum hlutum. Oftast koma þessi einkenni fram við einfalda hluti svo sem þegar fólk hallar sér fram til að teygja sig eftir léttum hlutum eða jafnvel við það að hnerra.
Ástæður bakverkja eru oftast tengdar aldurstengdum slitbreytingum í hrygg og engar vísbendingar um að það „að hlífa sér“ hægi á sliti í liðum eða hrörnun brjóskþófa á milli hryggjarliða.
Upplifun einstaklinga á bakverkjum er mjög breytileg, sársauki eftir bakverkjakast getur verið til staðar allt frá nokkrum dögum og upp í marga mánuði. Sumir upplifa mjög sterk sársaukaviðbrögð á meðan aðrir eru á hinum enda litrófsins og þola sársaukann mun betur. Erfðir virðast spila þarna sterkt inn í og rannsóknir sýna að bakverkir liggja meira í sumum fjölskyldum.
Aðferðir til að draga úr bakverkjum:
- Ekki leggjast í rúmið. Þó það sé freistandi að vera í rúminu þegar fólk lendir í slæmu bakverkjakasti þá getur rúmlega með tímanum gert ástandið verra. Um leið og þú treystir þér til er betra að vera á hreyfingu. Hreyfing getur dregið úr vöðvaspennu og minnkað stirðleika. Rúmlega getur hins vegar aukið sársauka þar sem varnarspenna á verkjasvæði eykst. Auk þess getur rúmlega aukið líkur á þunglyndi og blóðtappa í fótum.
- Meðhöndlaðu sársaukann. Heitir eða kaldir bakstrar og verkjalyf munu ekki lækna vandann en þau geta hjálpað heilmikið til að gera sársaukann bærilegan og auðveldað þér að komast af stað í hreyfingu. Ráðfærðu þig við lækni til að tryggja að þau lyf sem þú tekur séu rétt valin og örugg.
- Styrktu þig. Þó ekki sé ráðlagt að fara á fullt í ræktina í miðju verkjakasti geta léttar æfingar hjálpað til við að komast í gegnum verkina. Á milli verkjakasta er svo mikilvægt að byggja upp vöðvastyrk og vinna með stöðugleika til að minnka líkur á endurteknum bakvandamálum.
- Leitaðu til sjúkraþjálfara. Þeir eru sérfræðingar í stoðkerfi og geta aðstoðað þig við að finna leiðir til að draga úr verkjum.
Meðferð bakverkja
- ÓJH.
Krónískir verkir og meiðsli
Líkaminn notar uppbótarhreyfingar þegar styrkur eða liðleiki um liði er ekki nægjanlegur til að hreyfa í gegnum fullan hreyfiferil eða ef einhver hömlun (e. restriction) er til staðar í kringum liðinn. Þegar einstaklingur hefur gert margar endurtekningar af sömu uppbótarhreyfingunni endar það oftar en ekki sem verkur eða meiðsli. Algengt er að meiðslin komi upp í veikasta hlekknum í hreyfikeðjunni.
- 3: Rehabilitation principles for treating chronic musculoskeletal injuries.
- Compensation Patterns: Your Body is Telling You Something!
- Effective treatment options for musculoskeletal pain in primary care: A systematic overview of current evidence.
- Low back pain (chronic).
- Manual therapy, exercise therapy or combined treatment in the management of adult neck pain – A systematic review and meta-analysis.
- Systematic Literature Review of Imaging Features of Spinal Degeneration in Asymptomatic Populations.
Eðlilegt slit í hrygg
- Algengi slits í hrygg var frá 37% í kringum tvítugt og allt upp í 96% hjá einstaklingum í kringum áttrætt.
- Algengi útbungunar í hrygg var frá 30% hjá einstaklingum í kringum tvítugt og allt upp í 84% hjá þeim sem eru í kringum áttrætt.
- Algengi brjóskloss var frá 29% hjá einstaklingum í kringum tvítugt og allt upp í 43% hjá einstaklingum í kringum áttrætt.
Rót einkenna frá stoðkerfi
- Hvað gerðist?
- Af hverju gerðist það?
- Hvað get ég gert til að draga úr og losna við þessi einkenni og fyrirbyggja að þau komi upp aftur?
- Líkamlegir þættir.
Gæti verið verkur í mjóbaki eða annars staðar. - Einstaklingurinn.
Gætu verið endurteknar uppbótarhreyfingar hjá einstaklingnum vegna skorts á styrk eða liðleika í kringum liði. - Umhverfið.
Gæti verið slæm vinnuaðstaða, einhæfar hreyfingar, ónógur svefn og/eða streita tengd vinnu eða daglegu lífi.
Hvað er til ráða fyrst eftir meiðsli?
Hæfileg hreyfing á byrjunarstigi í endurhæfingunni er mikilvægur partur af bataferlinu. Þar má nefna að hæfileg hreyfing við skyndilegum verk í mjóbaki er töluvert árangursríkara heldur en ef lagst er í rúmið. Það sama á við um einstaklinga sem fá hálshnykk, það að hreyfa sig hæfilega hefur sýnt fram á töluvert betri árangur heldur en að vera með hálskraga og hvíla alveg svæðið þó vissulega sé mikilvægt að hvíla vel á milli.
Erfitt getur verið að að sætta sig við meiðsli og að þurfa að draga úr álagi, hvort sem um er að ræða íþróttir eða daglegt líf, en eins og fram hefur komið er það mikilvægt upp á bataferlið. Einnig er tilvalið að nýta tímann til að einblína á að styrkja sig á öðrum sviðum.
Líkamleg álagseinkenni í fjarvinnu
- Breyta reglulega um setstöðu ásamt því að standa og sitja til skiptis ef völ er á.
- Sitja vel upp á setbeinum og jafnvel þarf að toga rasskinnarnar aðeins aftur til að ná því.
- Virkja kviðinn til að forðast að mjóbakið leiti of mikið í fettu, einnig er hægt að hafa púða við mjóbakið til að styðja við.
- Opna brjóstkassa og hugsa að það sé eins og spotti upp úr hvirflinum til að missa ekki höfuðið í framstæða höfuðstöðu við tölvuskjáinn.
- Mikilvægt er þó að ná að slaka í ofangreindum stöðum, sem er mikilvægara en að ná að halda hinni „fullkomnu“ stöðu.
- Mælt er með því að standa upp á 30 mínútna fresti.
- Gott er að grípa reglulega í nuddbolta til ef óþægindi koma upp.
- Stilla stól og tölvu þannig að þegar viðkomandi horfir beint fram þá sé bein sjónlína á efri brúnina á tölvuskjánum, olnbogar og mjaðmir í aðeins meiri en 90° beygju.
- Regluleg hreyfing er svo mikilvægasta tólið til að koma í veg fyrir og draga úr stoðkerfisverkjum.
Mikilvægt er að hreyfa sig daglega í að minnsta kosti 30 mínútur, hreyfingin hjálpar til við að draga úr streitu og auka vellíðan. Þrátt fyrir það er gott að hafa í huga að hreyfing af mikilli ákefð þegar streita er til staðar getur aukið enn meira á streituna svo að mælt er með að velja frekar hreyfingu af lítilli eða meðal ákefð ef mikil streita er til staðar.
Á síðu Vinnueftirlitsins má finna góð ráð til að bæta vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við vinnu.
Að hvíla sig eftir klukkunni
Svanhvít V. Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá VIRK.
Skipulögð hvíld við langvinnum verkjum
Það er ekki óalgengt að einstaklingar með langvinna verki lendi í vítahring vinnu, verkja og hvíldar, sem þýðir að þeir ganga fram af sér á góðum dögum og hafa svo litla sem enga orku á slæmum dögum. Vítahringurinn getur leitt til þess að slæmum dögum fjölgar á kostnað þeirra góðu þar sem erfitt getur reynst að halda góðri virkni á slæmum dögum.
- ...er notuð til að jafna út virkni og hvíld
- ...getur dregið úr alvarleika og lengd verkjakasta
- ...felur í sér að taka hlé áður en verkir blossa upp
- ...getur dregið úr pirringi og gremju sem fylgir verkjaköstum
- ...getur dregið úr hættu á ofnotkun lyfja
-
Hversu lengi get ég gert ________ áður en verkir blossa upp?
-
Ég get ________ í ____ mínútur, en eftir á verð ég slæm/ur.
-
Trúlegast ræð ég við ____ mínútur án þess að einkennin versni.
Auk grunnviðmiða fyrir virkni þarf líka að finna út hæfilegan hvíldartíma svo koma megi í veg fyrir verki áður en virkni hefst að nýju. Tími virkni og hvíldar er notaður sem grunnviðmið fyrir raunhæfa virkni. Hafa þarf í huga að mismunandi athafnir krefjast mismunandi áætlunar.
Heimildir:
- Australian Pain Management Association. (e.d.). Pacing Activity. (APMA). Psychological Approaches To Pain Management. Sótt 24.3.2020.
- Otis, J. D. (2007). Managing Chronic Pain; A Cognitive-Behavioral Therapy Approach. UK: Oxford University Press.
- Stewart, M. og Jones, H. (2015). Pacing – how to manage your pain and stay active. Information for patients. UK: Oxford University Hospital NHS Trust.
- West Suffolk NHS Foundation Trust (e.d.). Chronic pain self-management Pacing and goal setting. Patient information. Sótt 24.3.2020.
Styrktarþjálfun við höfuðverk
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að ein klukkustund af sérhæfðri styrktarþjálfun, án tillits til hvernig þessum tíma var skipt niður á vikuna, dró bæði úr tíðni og styrk höfuðverkja hjá einstaklingum. Það sem var þó einnig áhugavert var að eingöngu styrktarþjálfun undir leiðsögn dró úr tíðni notkunar á verkjalyfjum við höfuðverkjunum miðað við viðmiðunarhópinn, en það dró ekki úr tíðni á notkun þeirra þegar um var að ræða styrktarþjálfun án leiðsagnar. Eftir þessar 20 vikur af styrktarþjálfun undir leiðsögn var 50% minnkun á tíðni og styrk höfuðverkja hjá þeim hópi sem stundaði styrktarþjálfun miðað við viðmiðunarhópinn sem stundaði ekki styrktarþjálfun.