Streita og kulnun
10 sterkir leikir gegn streitu í starfi
1. Ertu að forgangsraða?
Þótt þú vinnir langan vinnudag nærðu sjaldnast að klára allt sem þú ætlaðir að komast yfir. Kannski gætirðu bætt forgangsröðun hjá þér og æft þig í að meta hvað er í raun mikilvægast að gera og hvað skiptir minna máli. Að átta þig á hvaða verkefni er undirstaðan og hverju mætti fresta eða bæta við síðar – ef tími vinnst til. Þetta virðist einfalt, en getur verið snúið ef þig vantar tóm til að taka stöðuna og fá yfirsýn.
Þegar þú byrjar að forgangsraða finnst þér líklega allt sem liggur fyrir vera mikilvægt. Er það vegna þess að öll verkefnin í vinnunni eru jafn brýn eða áttu bara erfitt með að greina á milli mikilvægis þeirra? Það er góð hugmynd að ræða forgangsröðun við samstarfsfólk og ekki síst við yfirmanninn. Með því móti færðu aðstoð við að beina kröftum að réttu verkefnunum og aðrir í hópnum fara að hugsa á sömu nótum.
Prófaðu endilega að forgangsraða. Það gagnast líka í einkalífinu.
2. Forðastu óþarfa áhyggjur. Vertu jákvæðari.
Svartsýni hefur þann kost að maður verður síður fyrir vonbrigðum ef illa gengur. En svartsýni er afar letjandi, óuppbyggileg og oftast ástæðulaus. Það gagnast engum að reikna fyrirfram með að hlutir fari á versta veg. Og svartsýnin er óneitanlega niðurdrepandi, fyrir þann bölsýna og hugsanlega alla í kringum hann.
Þó að erfitt sé að ráða við neikvæða hugsun þá er hægt að þjálfa sig upp í að hugsa á jákvæðari hátt og um leið á uppbyggilegri nótum, til að vinna gegn streitu og áhyggjum.
Sjá umfjöllun um leiðir til að breyta neikvæðum hugsunarhætti í Handbók um hugræna atferlismeðferð á heimasíðu Reykjalundar.
3. Skipulagning vinnudagsins.
Flestir hafa mikið á sinni könnu og eru í sífelldri tímaþröng. Við ofmetum oftast hve miklu við náum á einum vinnudegi og gleymum að taka óvænta atburði með í reikninginn sem geta tafið fyrir. Þessar óraunhæfu væntingar verða til þess að í lok vinnudags er streitan í hámarki og við rjúkum heim frá hálfkláruðu verki, oft með slæma tilfinningu og dveljum lengi við vinnuna í huganum. Þegar við vöknum að morgni höldum við áfram að reyna að ná utan um daginn og verkefnin sem bíða. Margir kannast við drauma þar sem þeir eru að leysa vandamál í vinnunni með misgóðum árangri.
Það er því gott ráð að taka frá tíma í lok vinnudags og skipuleggja hvernig við ætlum að klára mikilvægustu málin, ákveða næstu skref og forgangsraða verkefnum morgundagsins. Gerðu lista! Með því móti eru færri lausir endar til að hafa áhyggjur af þegar heim er komið og hægt að hefja markvissa vinnu strax í upphafi næsta vinnudags.
Mundu að gera ráð fyrir óvæntum atburðum, gerðu eitt í einu og taktu stutt hlé inn á milli vinnutarna. Ef markmið nást ekki skoðaðu hvort áætlun þín var raunhæf í stað þess að ásaka sjálfa/n þig.
4. Að biðja um hjálp.
Þú verður að láta vita ef þig vantar hjálp. Flestir eru boðnir og búnir til að veita aðstoð og hafa jafnvel ánægju af því. Ekki reikna með að einhver stígi fram að fyrra bragði til að hjálpa, því við getum ekki lesið hugsanir og höfum oftast ekki hugmynd um að þú þurfir á aðstoð að halda.
Ef þú átt erfitt með að biðja um hjálp frá samstarfsfólki eða yfirmanni getur það verið vegna þess að þér finnst óþægilegt að viðurkenna að þú þurfir á hjálp að halda. Það getur líka verið að þér finnist að samstarfsfólk sé of upptekið til að aðstoða. Það má vera að svo sé og þá er það fullfært um að segja nei eða vísa þér annað. En almennt sýnir fólk því skilning að þú þurfir á aðstoð að halda. Þú ættir alltaf að geta leitað til yfirmanns þíns þegar þú ert óviss og þarfnast leiðbeininga. Hann kann að meta að þú leitir svara til að geta sinnt þínu starfi.
Mundu að allir þurfa aðstoð af og til, ekki síst við að taka erfiðar ákvarðanir. Hér eru nokkrar algengar ástæður þess að fólk biður ekki um hjálp í vinnunni. Er þetta kunnuglegt?
- Vinnufélagar hafa svo mikið að gera að ég kann ekki við að spyrja.
- Ég vil ekki sýna veikleika, að ég ráði ekki við starfið.
- Ég er vön/vanur að hjálpa öðrum og þá er ekki við hæfi að ég biðji um aðstoð.
- Ég hef prófað að biðja um aðstoð en fékk hana ekki.
- Það tekur langan tíma að útskýra hvað ég þarf hjálp við að gera, er fljótari að finna út úr því sjálf/ur.
- Ég er ekki viss um að vinnufélaginn geti leyst málið betur en ég.
5. Haltu vissri fjarlægð.
Þótt þú viljir sökkva þér ofan í krefjandi og spennandi verkefni þá þarf að gæta þess að halda vissri fjarlægð frá starfinu svo það taki ekki yfir allan þinn vökutíma.
Ef þú vinnur starf sem tengist umönnun og velferð fólks er sérlega erfitt að halda þessari fjarlægð. Ekki er átt við að þú eigir að vera afskipta- eða áhugalaus, heldur að þú skiljir og sættir þig við að vandamál skjólstæðinga þinna eru ekki þín eigin. Þú getur aðeins veitt faglega aðstoð ef þú gengur ekki inn í vanda annarra því þá tapast sú yfirsýn sem þú þarft á að halda.
Sættu þig við að þú getur ekki haft stjórn á öllu og að aðrir hafa sín mörk sem ber að virða.
6. Viðurkenning og vinnufélagar.
Ef við metum okkur sjálf og vinnufélaga okkar að verðleikum, eru meiri líkur á að skapa hvetjandi vinnuumhverfi sem getur leitt til nýsköpunar og breytinga. Það er okkur öllum nauðsynlegt að fá viðurkenningu, athygli, að vera sýnt traust og fá endurgjöf.
Með því að einblína á leiðir til úrbóta frekar en að benda á galla verður þróun í jákvæða átt. Við lærum heilmikið á að skoða frekar sigra okkar en mistök, að hafa framtíðarsýn í takt við eigin óskir og að einbeita okkur að markmiðum sem við viljum ná, frekar en að því sem við viljum forðast.
7. Segðu nei með góðri samvisku.
Þú hefur eflaust sagt já við einhverju þótt þú hefðir svo gjarnan viljað segja nei. Í starfi er þetta ekki alltaf klippt og skorið og stundum erfitt, en ef þú tekur endalaust við nýjum verkefnum þá verður eitthvað undan að láta. Sumir eru meðvitaðir um sín mörk en aðrir eiga erfiðara með að stíga á bremsuna. Það er enginn betur til þess fallinn en þú að meta hvenær þú ert komin/n að þolmörkum.
Þér finnst kannski óábyrgt að hafna verkefnum, en í raun er óábyrgt gagnvart öllum að taka að sér meira en þú ræður við.
Til þess að geta sagt nei með góðri samvisku er nauðsynlegt að þú og vinnufélagarnir hafið rætt um hvaða verkefni eru mikilvægust og þurfa að vera í forgangi.
8. Nýttu frítímann til að finna jafnvægið.
Oft virðist verkefnalistinn í vinnunni vera ótæmandi. Því verðum við að setja okkur mörk svo að starfið flæði ekki yfir í frítímann. En það er ekki nóg að skrúfa niður í starfinu þegar þú kemur heim, þú verður að að skrúfa upp í athöfnum sem mynda mótvægi við vinnuna. Reyndu að hreyfa þig úti við og hvílast vel. Sinntu skapandi áhugamálum, eldaðu eitthvað spennandi, leiktu þér, láttu þig dreyma, taktu myndir eða sæktu menningarviðburði - allt eftir efnum og áhugasviði. Gerðu eitthvað öðruvísi, en ekki allt í einu! Veldu eitthvað gefandi og skemmtilegt og njóttu þess. Fáðu hugmyndir á vef Reykjalundar.
Ef þú átt fjölskyldu er góð hugmynd að skipta deginum upp í vinnutíma, tíma með fjölskyldunni og tíma fyrir þig sjálfa/n. Persónulegi tíminn er afar mikilvægur því þetta er eini tími dagsins þar sem ekki eru gerðar til þín kröfur. Hann mætir þó oft afgangi og stundum er nær enginn tími eftir til að slaka á og jafna sig eftir daginn. Sumir nota þar að auki þennan dýrmæta tíma til að skoða og svara vinnupósti, auk þess að vera virkir á samfélagsmiðlum. Til að forðast streitu er mikilvægt að þú finnir jafnvægi og reynir eins og hægt er að auka þann tíma sem þú hefur án skuldbindinga.
P.s. hvenær gerðirðu síðast eitthvað sem þú virkilega elskar að gera?
9. Er vinnufélagi í vanda?
Það kemur fólki oft í opna skjöldu ef vinnufélagi brotnar saman vegna streitu. Hann hefur mögulega virkað sterkur og aðrir líklegri til að sigla í strand vegna álags.
En ert þú á vaktinni með hvort þínir vinnufélagar eigi í erfiðleikum? Hægt er að leita að ýmsum merkjum, en athugaðu að sá sem ræðir mest um streitu og álag við kaffivélina er ekki endilega sá sem á í vanda. Þeir sem eru að sligast undan álagi eru líklegri til að draga sig í hlé og ræða ekki líðan sína.
Hugleiddu hvort breytingar verða í hegðun vinnufélaga þinna. Eru þeir venju fremur óþolinmóðir, spenntir, gagnrýnir, uppstökkir, órólegir eða gleymnir? Gætir þú mögulega boðið fram hjálp?
10. Hollur matur og hreyfing - hollráð gegn streitu.
Við vitum að matur hefur áhrif á hversu orkumikil og virk við erum. Flestir hafa upplifað óþægindi eftir að hafa borðað mikinn sykur, þungar máltíðir og drekka kaffi í óhófi. Ef sveiflur verða í blóðsykri eigum við erfiðara með að einbeita okkur sem truflar starf okkar og líðan.
Hreyfing hefur afgerandi áhrif á það hversu vel við þolum álag. Hún er frábært mótvægi við uppsafnaða spennu auk þess sem hún bætir svefn og almenna líðan. Góður göngutúr eða hjólatúr gagnast vel til að losa um streitu. Sumir njóta þess að fara í ræktina, sund, golf, ganga á fjöll eða dansa heima við skemmtilegt lag. Ef kyrrseta er mikil á vinnutíma er sérlega mikilvægt að hreyfa sig daglega. Flestir eru vel meðvitaðir um þetta, en oft er erfitt að koma sér af stað, sérstaklega þegar við erum uppgefin. Þá er gott að muna að ekki þarf mikið til, nokkrar mínútur hér og þar yfir daginn skila sér margfalt til baka í aukinni orku. Prófaðu að reima á þig skóna og ganga af stað.
Mat okkar skiptir máli
Í næstu greinum má finna góð almenn ráð gegn streitu, umfjöllun um orlof og streitu og mikilvægi þess að ná að aftengja sig eftir vinnu. Einnig er rætt um að vera með vinnuna „á heilanum“ og viðhorf til streitu.
Geta vinnufélagar hjálpað?
- Það skiptir miklu máli að hafa trú á að hægt sé að leysa verkefnin sem við fáumst við á vinnustað.
- Ef starfsmaður hefur stuðning frá stjórnanda og vinnufélögum er auðveldara að þola álag og taka ýmsum áföllum í daglegu starfi.
- Mikilvægt er að vinnufélagar geti rætt saman um mögulegt álag í starfinu og geti brugðist við ef einhver sýnir einkenni streitu eða vanlíðunar.
- Skipuleggið verkefnin og skiptið þeim niður svo þau verði viðráðanlegri og allir þekki sitt hlutverk.
- Ef verkaskipting og ábyrgð er óskýr óskið þá eftir skýrum leiðbeiningum hjá næsta yfirmanni.
- Fyrsta skrefið til að bregðast við og fyrirbyggja mikla streitu er að ræða málin á hreinskilinn hátt.
Örhlé
Hlé til æfinga. Einfaldar æfingar fyrir háls og herðar í 60 sekúndur auka blóðflæði til spenntra vöðva og losa um úrgangsefni. Ef þetta er gert 1-2 sinnum á klukkustund er hægt að koma í veg fyrir mikið af verkjum og óþægindum sem stafa af læstum vinnustellingum við skjáinn.
Hlé til að bæta einbeitingu. Stattu upp og reyndu að stíga út úr því verkefni sem þú ert að vinna.
- Ertu að nýta tímann skynsamlega?
- Hefur þér yfirsést eitthvað mikilvægt?
- Hvað ætti að vera í forgangi hjá þér næsta klukkutímann?
Taktu eftir hvort þú finnur fyrir spennu eða óþægindum í líkamanum og ef svo er komdu blóðinu á hreyfingu á því svæði.
- Axlir.
Leggðu hendurnar framan á axlirnar og láttu olnbogana vísa út til hliðanna. Teiknaðu eins stóran hring með olnbogunum og þú getur. Láttu axlirnar rúlla með. Endurtaktu 10 sinnum í hvora átt. - Teygðu handleggi.
Teygðu handleggina upp í loftið, eins langt og þú nærð. Teygðu þá svo beint fram og dragðu annan olnbogann eins langt aftur og þú getur, eins og sért að spenna upp boga. Gerðu þetta 10 sinnum með hvorn handlegg. - Hryggur.
Láttu handleggina falla máttlausa niður með síðum og rúllaðu bakinu rólega fram. Láttu armana dingla frjálslega í nokkrar sekúndur. Rúllaðu hryggnum rólega upp aftur og teygðu handleggina eins langt upp í loft og þú getur. Endurtaktu 5 sinnum. - Komdu blóðinu á hreyfingu.
Hristu hendurnar út með síðum eins og þú sért að hrista af þeim vatn. Hristu 10 sinnum svo blóðið þrýstist fram í fingurgóma og losni um axlirnar í leiðinni. - Teygðu á lærum.
Best er að gera þetta í tröppum en einnig má nota stól. Settu annan fótinn upp á aðra til þriðju tröppu eða stól og réttu úr hnénu svo að teygist vel á alveg aftur í rasskinn. Skiptu um fót nokkrum sinnum.
- Farðu aukaferð í kaffivélina, prentarann, ávaxtaskálina, á salernið eða út að glugga.
- Stattu upp þegar þú talar í síma og gakktu aðeins um þegar þú ert í farsímanum.
- Skiptu um sæti þegar þú ert að lesa eitthvað yfir.
- Stattu upp og gakktu aðeins um þegar þú þarft að hugsa flókin mál.
- Röltu til vinnufélagans til að spyrja ráða í stað þess að senda tölvupóst – en gættu að því að þú truflir hann ekki.
Þegar flest virðist manni ofviða
Í nýlegri grein í Harvard Business Review segir að mörg störf verði sífellt meira krefjandi og að við stöndum frammi fyrir flóknari áskorunum og meiri hraða. Við þetta bætast kröfur í einkalífinu svo að sumir fá á tilfinninguna að það þyrmi yfir þá, að þeir séu yfirbugaðir (e. overwhelmed). Auknar flækjur í lífinu taka stundum fram úr getu okkar til að ráða við þær á árangursríkan hátt. Þetta tengist ekki því hve klár við erum heldur frekar því hvernig við skynjum heiminn og hvernig við störfum.
- ... ef eitthvað gleymist þá hef ég brugðist og engin leið er að bæta skaðann
- ... ef ég er ekki á staðnum til að hjálpa þá er engin þörf fyrir mig og menn fara að efast um hlutverk mitt
- ... ef ég missi tökin, þá klúðra aðrir málinu og fyrirtækið lendir í vanda
Streita hjálpar til við að koma hlutum í verk
Samkvæmt Yerkes-Dodson lögmálinu batnar frammistaða með lífeðlisfræðilegri eða andlegri örvun (streitu) en aðeins upp að vissu marki. Þegar streitustigið verður of hátt dregur úr árangri. En þar með er ekki öll sagan sögð því inn í þetta spilar flækjustig verkefna og hversu vel þekkjum þau. Erfið og ókunnugleg verkefni krefjast minni örvunar til að ná fram einbeitingu en á hinn bóginn þarf meiri örvun til að sinna verkefnum sem krefjast þreks eða seiglu til að vekja og viðhalda áhuga.
Smelltu á mynd til að sjá skýringarmyndband (á ensku). Lóðrétti ásinn táknar frammistöðu og sá lárétti örvun (streitu).
Taktu meiri stjórn. Þótt þú sért ekki í stjórnunarstöðu er hægt að finna ýmsar leiðir til að hafa meira um starfið að segja. Hægt er að velja að einbeita sér að sviðum þar sem þú getur tekið ákvarðanir, til að mynda með því að forgangsraða verkþáttum eða velja í hvaða röð þú svarar tölvupóstum.
Vertu þú sjálf/ur. Það getur verið streituvekjandi að vera ekki maður sjálfur í vinnunni, að þurfa að fylgja skoðunum annarra frekar en að orða sínar eigin. Reyndu til dæmis að finna flöt á að nýta hæfileika þína í verkefnum og setja mark þitt á vinnusvæðið.
Siðir og hjátrú. Sumir íþróttamenn eru hjátrúarfullir í tengslum við keppnir og taka upp óvenjulega siði, t.d. að klæðast tilteknum fötum eða borða alltaf sama mat á keppnisdegi. Rannsóknir hafa sýnt að þessir siðir geti bætt frammistöðu. Í greininni er vitnað í áhugaverðar tilraunir þar sem þátttakendur áttu að spila golf ýmist með „happa-golfkúlu“ eða venjulegri golfkúlu og í annarri tilraun áttu þátttakendur að vinna hreyfifærniverkefni þar sem hluta hóps var sagt að rannsakandinn krossaði fingur fyrir þá. „Hjátrúin“ jók traust þátttakenda á eigin getu, hvatti til meiri viðleitni – og bætti árangur í kjölfarið. Þessir siðir sem byggðir eru á hjátrú virðast skerpa athygli, auka tilfinningalegan stöðugleika og draga úr áhyggjum og streitu.
Orlof og streita
Margir þættir spila inn í hve fljótt áhrifin dvína, svo sem verkefnabunkinn sem stækkar iðulega í fríinu svo álag verður meira fyrstu dagana, vinna/vöktun í fríinu sjálfu, eða streituvekjandi starfsumhverfi sem breytist víst ekki þótt starfsmaður fari frá um lengri eða skemmri tíma.
Það sem við gerum í frítímanum virðist einnig skipta máli. Í þýskri rannsókn á frístundaiðju kom í ljós að ferðalög, íþróttaiðkun og samvera með vinum höfðu jákvæð áhrif á vellíðan á meðan netráp og sjónvarpsgláp í frítíma höfðu neikvæð áhrif. Í hollenskri rannsókn meðal fólks sem fór í skíðaferð kemur fram að það taldi heilsu sína og skap batna í fríinu. Spenna minnkaði, orka jókst og almennt var fólk ánægðara. Í fyrstu viku í starfi voru þessi jákvæðu áhrif oftast gengin til baka og menn mátu sig á svipuðum stað og áður en þeir fóru í leyfið.
Stjórnendur og samstarfsmenn geta gert okkur auðveldara að snúa aftur til starfa eftir frítöku svo við lendum ekki strax í sama fari. Undirbúningur fyrir fríið er líka mikilvægur, einkum það að einhver taki við verkefnum þínum eða a.m.k. hluta þeirra og að þú skiljir ekki mikilvæg verkefni eftir í lausu lofti sem þú gætir haft áhyggjur af í fríinu.
-
Taktu fleiri en eitt frí yfir árið. Jákvæð áhrif frítöku eru sterk en vara stutt.
-
Reyndu að fyrirbyggja vanda í fríinu sjálfu (vera t.d. búin/n að yfirfara bíl og útbúnað, endurnýja lyf og ákveða ferðatilhögun ef þú ferðast með öðrum).
-
Gerðu eitthvað skemmtilegt því skemmtilegar upplifanir bæta heilsu og auka á vellíðan í fríinu.
-
Komdu í veg fyrir að þín bíði mjög krefjandi verkefni strax þegar þú mætir til vinnu því þá má reikna með að jákvæð áhrif frítökunnar gufi hratt upp.
-
Safnaðu góðum minningum í fríinu svo þú getir rifjað þær upp síðar og deilt með öðrum.
Könnun APA á áhrifum þess að taka frí
Nokkrir þættir sem vitað er að vinna gegn vinnutengdri streitu voru rannsakaðir í könnun American Psychological Association (APA) 2018. Þar kemur fram að talsverður meirihluti aðspurðra segist slaka á í fríum, sofa betur og upplifa áhugaverða hluti sem ekki tengjast starfinu. Rúmur helmingur hugsar ekki um vinnuna og 63% vinna ekki í fríinu. Þegar fólk snýr aftur úr fríi eru tæp 70% jákvæðari, 66% orkumeiri og tæp 60% áhugasamara og finna síður til streitu. 55% þátttakenda töldu sig skila betri vinnu eftir fríið. Áhrifin vara þó stutt og 2/3 svarenda sögðu að þessi jákvæða breyting fjaraði ýmist út strax eða eftir aðeins nokkra daga.
Vinnumenningin virðist skipta miklu máli. Aðeins um 40% svarenda mátu það svo að fyrirtæki þeirra hvetti starfsmenn til að taka frí og aðeins 38% nefndu að stjórnandi hvetti til þess. Þeir sem unnu þar sem jákvæðni ríkti gagnvart frítöku náðu að jafna sig betur á streitu í fríinu og jákvæðu áhrifin entust lengur. 93% starfsmanna hjá þessum fyrirtækjum sögðust geta notið frídaganna á móti 74% í fyrirtækjum sem ekki hvöttu til frítöku, 90% sögðu að þeir hefðu getað slakað á en um 70% í seinni hópnum, 84% sögðu að þeir svæfu betur (á móti 64%). Starfsmenn í fyrri hópnum hugsuðu sjaldnar til vinnunnar, unnu sjaldnar í fríinu og kviðu síður fyrir því að mæta til vinnu aftur. Og síðast en ekki síst sögðu aðeins 14% starfsmanna í fyrri hópnum að jákvæð áhrif frítöku hyrfu strax þegar mætt væri til vinnu, á móti 38% starfsmanna í seinni hópnum.
Mikill munur var á hópunum þegar komið var aftur til vinnu - þar sem hvatt var til frítöku töldu rúm 70% sig ná meiru í verk og 70% að gæði vinnunnar væru meiri, á móti 47% og 46% í hinum hópnum. Fleiri í fyrri hópnum sögðust vera jákvæðari, orkumeiri, áhugasamari og minna stressaðir en fyrir fríið.
Vel heppnað frí - nokkur ráð
Samstarfsmenn
- Þegar samstarfsmenn fara í frí kveðjið þá með góðum óskum og takið vel á móti þeim þegar þeir koma aftur til starfa.
- Áður en þú ferð í frí skilaðu vel af þér öllum verkefnum og gerðu samstarfsfólki grein fyrir hver muni bera ábyrgð á hverju verkefni fyrir sig. Þú þarft líka að fá sams konar leiðbeiningar þegar aðrir fara í frí. Mikilvægt er að forgangsraða verkefnum, sum verður að klára áður en þú ferð, önnur þurfa samstarfsmenn þínir að leysa á meðan og sumt má bíða þar til þú kemur aftur. Yfirmaður þarf oftast að hafa yfirsýn yfir stöðu verkefna og aðstoða með forgangsröðun.
- Berðu virðingu fyrir fríi annarra. Hringdu aðeins eða sendu póst ef það er mjög áríðandi. Ef sýnt er og óhjákvæmilegt að trufla þurfi vinnufélaga í fríinu er best að ákveða fyrirfram hvenær og hvernig það er gert.
- Gefðu fólki tóm til að lenda. Ekki ráðast að samstarfsmanni með ný verkefni strax á fyrsta degi. Bjóddu frekar fram aðstoð við að veita yfirsýn og til að komast í gang.
- Mundu að allir eiga rétt á að fara í frí. Ef þú hefur verið í vinnu á meðan aðrir hafa verið í fríi hefurðu eflaust fundið fyrir meira álagi. Ekki láta það bitna á þeim þegar þeir koma aftur. Allir hafa sinn rétt og röðin mun koma að þér.
- Ef þú hefur áður átt í vanda vegna streitu mun líklega verða erfitt að byrja aftur að vinna. Þá þarftu aukið næði til að ná yfirsýn og mikilvægt er að samstarfsfólk og yfirmenn sýni tillitssemi og þolinmæði.
- Stundum er fólk tilbúið að vinna þegar flestir kjósa að taka frí. Ekki er úr vegi að þakka þeim sem standa vaktina sérstaklega fyrir liðlegheitin.
Þetta getur þú sjálf/ur gert
Oftast þarf að taka tillit til verkefna, vinnufélaga og fjölskyldu þegar orlof er ákveðið. En þú getur haft áhrif á nokkur atriði sem gagnast mögulega við að njóta orlofsins og snúa aftur til vinnu.
Áður en þú ferð í fríið:
- Best er að ljúka öllum aðkallandi verkefnum eða koma þeim í farveg hjá öðrum áður en þú ferð í frí. Það er oft hægara sagt en gert og því mikilvægt að byrja snemma að ákveða hvað er í forgangi og hvað má bíða. Einnig er góð regla að gera lista yfir forgangsmál sem þarf að vinna þegar þú kemur til baka. Þetta eykur líkurnar á að þú farir rólegri í fríið og verðir fyrir minni truflunum. Þú verður einnig fljótari að komast í gang aftur. Mundu að virkja out-of-office skilaboð þar sem fram kemur að þú sért frá vinnu fram að tiltekinni dagsetningu og hver sé staðgengill þinn ef málið þolir ekki bið.
- Reyndu að taka því rólega áður en þú ferð í frí. Þetta gæti reynst þrautin þyngri en það hjálpar þér að byrja strax að njóta ef þú ert ekki útkeyrður þegar fríið hefst.
Í fríinu:
- Vertu alveg í fríi fyrstu dagana. Það tekur tíma að ná sér niður, sérstaklega ef mikið hefur verið að gera áður en haldið var í fríið.
- Gleymdu vinnunni. Skildu vinnusímann eftir ef hægt er og slepptu því að skoða tölvupóstinn. Þú hvílist betur ef þú getur kúplað þig alveg út og verður ferskari þegar þú kemur til baka. Ef þú ert í alvörunni ómissandi vertu þá búin/n að tiltaka hvenær má trufla þig og í hvaða tilvikum. Láttu fjölskylduna líka vita með fyrirvara.
- Gott er að ljúka fríinu á rólegu nótunum og mæta helst ekki til starfa beint af flugvellinum.
Eftir fríið:
- Farðu rólega af stað. Reyndu að stilla verkefnum þannig upp að þú drekkir þér ekki á fyrsta degi.
- Það getur verið gott að byrja ekki á mánudegi ef þú hefur verið í lengra fríi.
- Gefðu þér tíma til að lenda. Það hafa ótal hlutir gerst í vinnunni síðan þú fórst og þú getur ekki ætlast til að frétta af öllu eða setja þig inn í öll mál á einum degi. Byrjaðu á verkefnum dagsins og því sem fyrir liggur, þú átt eftir að ná utan um önnur verkefni smátt og smátt.
Vinnustaðurinn
Skýr rammi, samráð og raunhæf áætlun eru verkefni vinnustaðarins þegar kemur að fríum starfsmanna. Stjórnendur verða að tryggja að starfsemin gangi sinn vanagang á sumarleyfistímabilum og að ekki sé of mikið álag á þá sem eftir verða.
- Settu skýrar reglur. Það getur oft verið snúið og stundum nær útilokað að skipuleggja sumarfríin svo öllum líki. Það mikilvægasta er að það séu skýrar, sanngjarnar og gagnsæjar reglur sem gilda fyrir alla.
- Hafðu samráð. Allir þurfa að geta komið sínum óskum á framfæri þó að ekki sé alltaf hægt að verða við þeim öllum. Það er á hendi stjórnandans að púsla saman orlofsóskunum og reyna að koma til móts við fólk eins og mögulegt er.
Í lögum um orlof segir í 5 gr. að atvinnurekandi skuli verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar.
- Gerðu raunhæfar áætlanir. Á sumrin og í kringum helstu frídaga þarf að huga að álagi á þá sem eftir verða á vinnustaðnum. Það þarf að ráða afleysingafólk með góðum fyrirvara og stilla af verkefni svo ekki komi upp óþarfa vandamál. Gæta þarf að því að tími gefist til að skila af sér, erfitt getur verið fyrir þá sem koma úr fríi að sitja uppi með verkefni sem ekki er vitað hvernig á að leysa.
- Forðastu í lengstu lög að trufla fólk í fríi. Ef þið sjáið að það verði nauðsynlegt er mikilvægt að ákveða fyrirfram hvenær og hvernig haft verði samband.
Eyðing tölvupósts í sumarleyfum starfsmanna
Að aftengjast og jafna sig eftir vinnu
Þegar við erum „búin á því“ er lausnin sú að öðru jöfnu að gera hlé á starfi eða takast í það minnsta á við önnur og ólík verkefni. Það gengur þó ekki alltaf nógu vel.
Sabine Sonnentag prófessor við háskólann í Mannheim er ein þeirra sem skoðað hefur mikilvægi þess að jafna sig eftir vinnudaginn. Hún telur að aftenging frá starfi sé lykilatriði til að jafna sig á andlegri þreytu. Hugtakið sálfræðileg aftenging (e. psychological detachment) vísar til þess að einstaklingur hafi þá tilfinningu að vera fjarri vinnuaðstæðum í frítímanum og andlega aftengdur starfinu. Þá er hann hvorki að sinna vinnutengdum verkefnum (t.d. að skoða tölvupóst) né að hugsa um vinnutengd mál (t.d. flókin úrlausnarefni og erfið samskipti við vinnufélaga). Fylgni er milli þess að takast að aftengja sig í frítíma og frammistöðu í starfi. Einnig eru þeir sem ná skýrri aðgreiningu ánægðari með lífið og finna síður fyrir sálrænum álagseinkennum.
- starfsmenn sem ná að aftengja sig upplifa meiri andlega vellíðan en þeir sem eiga erfitt með að slíta sig frá starfi.
- áhrif þess að geta aftengt sig koma fljótt fram. Í dagbókarkönnun sem gerð var meðal opinberra starfsmanna kom í ljós að ef þátttakendur gerðu eitthvað sem gat aftengt þá eftir vinnudag héldust jákvæð áhrif þess fram á næsta dag og þeir voru síður þreyttir og pirraðir.
- jákvæð áhrif aftengingar eru sérlega mikilvæg þegar um er að ræða störf þar sem streita er mikil, en þeir sem ná að setja skýr mörk eiga auðveldara með að takast á við streitu. Langtímarannsókn sýndi að tímapressa í starfi tengdist ekki sállíkamlegum vandamálum ef starfsmenn gátu skilið á milli.
- aftenging tengist nokkrum þáttum frammistöðu í starfi svo sem úrlausn verkefna. Rannsókn sýndi að ef menn náðu fjarlægð frá vinnu yfir helgi mættu þeir frískari til starfa á nýjan leik og unnu fremur að forvirkum verkefnum í vikunni (t.d. við skipulagningu eða kennslu). Önnur rannsókn sýndi reyndar að þeir sem áttu allra auðveldast með að kúpla sig út stóðu sig álíka illa og þeir sem náðu minnstri fjarlægð, mögulega vegna þess að þeir þurftu meiri tíma til að koma sér inn í verkefnin á nýjan leik.
- Að styðja starfsmenn í að geta verið fjarverandi í frítíma sínum.
- Að haga vinnuskyldum þannig að þær flæði ekki inn í frítíma starfsmanna.
- Að veita svigrúm til að starfsmaður geti skipt yfir í vinnuhlutverkið. Til dæmis að hjálpa til við að gera áhlaupslista fyrir daginn.
- Yfirmenn ættu að vera fyrirmyndir með því að vera sjálfir ekki aðgengilegir í frítíma og trufla ekki starfsmenn utan vinnutíma.
- Fyrirtækið ætti að skapa þannig vinnuanda að yfirvinna heyri frekar til undantekninga en hitt.
Með vinnuna á heilanum
- ...neikvæð samskipti við yfirmann, samstarfsmann eða viðskiptavin í vinnunni rifjuð upp aftur og aftur
- ...sífellt reynt að finna lausn á viðfangsefni sem ekki tókst að ljúka
- ...erfitt viðtal við skjólstæðing eða aðstandanda rifjað upp
Gerð var rannsókn með hópi þátttakenda sem gruflaði mikið um vinnuna annars vegar og hópi sem náði að aftengja sig frá vinnu hins vegar. Báðir hóparnir voru sammála um kosti heilbrigðs lífernis en þeir sem settu skýr mörk virtust fremur ástunda hollan lífsmáta en hinir - hreyfðu sig m.a. meira. Vísbendingar eru um að þeir sem grufla hafi frekar heilsufarsvanda, svo sem svefnvandamál og hjarta- og æðasjúkdóma. Þeir eru líklegri til að glíma við skort á einbeitingu, eru neikvæðari, kvíðnari og hafa meiri áhyggjur. Þeir velja frekar að sinna verkefnum sem svipar til vinnunnar eða eru beinlínis vinnutengd í frítímanum á meðan hinir leita í afþreyingu af ólíkum toga.
Reynandi er að minnka vinnutengt grufl með því að finna afþreyingu sem krefst fullrar einbeitingar og tekur athygli frá vinnunni. Það er vitað að auðveldara er að aftengja sig í félagsskap annarra en í einrúmi. Það er því ráð að hitta ættingja og vini, stunda hreyfingu, núvitundaræfingar og annað sem hjálpar fólki við að leiða hugann á aðrar brautir. Það hjálpar líka til að vinna að verkefnum sem við teljum mikilvæg, svo sem að aðstoða aðra og vinna sjálfboðavinnu.
Viðhorf til streitu
Í framhaldi af umræðunni hér fyrir ofan um streitu er ekki úr vegi að skoða aðrar kenningar. Í grein sem birtist í tímaritinu Health Psychology árið 2012 er fjallað um rannsókn þeirra Keller og félaga á viðhorfum til streitu. Notast var við gögn úr stórri alþjóðlegri rannsókn í Bandaríkjunum (1998 National Health Interview Survey) og var stuðst við svör tæplega 29.000 þátttakenda sem upplifðu að streita hefði áhrif á heilsu þeirra að miklu eða litlu leyti. Svörin voru borin saman við skráningar á dauðsfölllum (National Death Index mortality data) til ársins 2006 en þá höfðu 2.960 einstaklingar úr hópnum (10.3%) látist. Í ljós kom að þeirsem upplifðu mikla streitu og trúðu því jafnframt að streitan hefði áhrif á heilsu þeirra voru í 43% meiri hættu á því að látast fyrir aldur fram heldur en þeir sem upplifðu mikla streitu en höfðu ekki áhyggjur af því að hún væri skaðleg heilsu þeirra. Niðurstöðurnar benda til þess að bæði upplifað magn af streitu og hve mikið við trúum því að streitan sé skaðleg fyrir heilsuna gæti haft samverkandi áhrif. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að neikvætt viðhorf til lífsviðburða tengist verri líkamlegri og andlegri heilsu.
Ekki eru allir fræðimenn á því að niðurstöðurnar hafi verið rétt túlkaðar og bent hefur m.a. verið á að þó að rannsókn sýni tengsl á milli þess að trúa því að upplifuð streita sé skaðleg heilsunni tengist sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum þýði það ekki að sú trú valdi sjúkdómum. Þvert á móti geti fólk sem upplifir streitu en er við þokkalega heilsu trúað að streitan valdi þeim ekki skaða á meðan að þeir sem búa við heilsubrest geta trúað því að streita sé skaðleg. Þannig séu tengslin sem rannsóknin sýndi frekar útkoma en orsök.
Hvort sem um orsakasamband er að ræða eður ei þá leiða þessar niðurstöður hugann að umræðu um fyrirbæri eins og placebo eða lyfleysu og nocebo. Flestir hafa heyrt talað um lyfleysu áhrif en færri eru meðvitaðir um andstæðu placebo eða nocebo. Nocebo kemur frá latneska orðinu nocebo sem merkir „ég mun skaða”. Lyfleysuáhrifin hafa verið mikið rannsökuð en nocebo áhrifin mun minna en jafnvel er talið að það geti haft meiri áhrif ef við teljum að eitthvað sé slæmt fyrir okkur heldur en öfugt. Það verður áhugavert að fylgjast með þessari umræðu í framtíðinni en kannski ástæða til að staldra við og skoða viðhorf okkar til streitu.
Kulnun
Kulnun í starfi
Kulnun í starfi er alvarlegt ástand sem lýsir sér í tilfinningalegri, sálrænni og líkamlegri örmögnun. Ástandið kemur í kjölfar langvarandi streitu sem hefur verið viðvarandi, jafnvel árum saman. Ekki er til ein algild skilgreining á kulnun en flestir eru sammála um helstu einkenni. Hugtakið er einkum notað í tengslum við störf og langvinna starfstengda streitu. Auk vinnutengdra þátta geta persónuleiki, aðstæður, heilsufar og lífsstíll verið áhrifaþættir í þróun í átt til kulnunar.
Starfstéttir sem vinna við umönnun fólks og við að leysa úr vanda annarra, eru líklegastar til að finna til kulnunareinkenna. Má þar nefna heilbrigðis- og umönnunarstéttir.
Einkennin hafa áhrif á allt líf viðkomandi og aðstandenda þeirra, en rétt er að benda á að til eru gagnleg úrræði fyrir þá sem glíma við kulnun og margir ná mjög góðum árangri.
Með aukinni meðvitund um kulnun og í almennri umræðu er hugtakið gjarnan notað á frjálslegan hátt yfir tímabundna streitu eða jafnvel starfsleiða, en einkenni kulnunar eru áberandi ólík þeim einkennum sem við upplifum við tímabundna erfiðleika og álag. Einkenni langvarandi streitu og kulnunar eru einnig að mörgu leyti ólík.
Hvað er kulnun ekki?
Kulnun er ekki skilgreind sem sjúkdómur eða röskun í alþjóðlegum greiningarkerfum. Misjafnt er milli landa og faghópa hvernig talað er um hugtakið og einkennin sem um ræðir.
Vegna skorts á skilgreiningu eru ekki til haldbær gögn um hve algeng kulnun er.
Einkenni kulnunar
- Tilfinningaleg örmögnun
einkennir helst kulnun í starfi. Hún kemur fram sem óeðlileg þreyta, lítið úthald, mikið orkuleysi, tilfinningaleg deyfð og skortur á frumkvæði. - Bölsýni
einkennir þá sem finna til kulnunar í starfi. Bölsýni felst í neikvæðu viðhorfi til starfsins og þeirra sem starfið beinist að, sem getur komið fram í pirringi, tortryggni og hæðni. Þá missir fólk oft áhugann á starfinu og hugsjónum sem það hafði áður. -
Minnkuð vinnufærni og minnkuð trú á sjálfum sér og eigin getu. Bera fer á gleymsku, einbeitingarskorti og lækkuðu álagsþoli.
Langvarandi streita og kulnun
Langvarandi streita vegna álags í starfi lýsir sér oft þannig að starfsmaðurinn er ákafur og spenntur. Honum þykir hann hafa of mikið að gera til að staldra við og ná yfirsýn eða forgangsraða. Hann finnur sig knúinn til að halda áfram þrátt fyrir að orka hans og geta fari minnkandi og það fari að bera á streitueinkennum og almennri vanlíðan.
Á þessu stigi þarf starfsmaðurinn á aðstoð að halda, fyrsta og mikilvægasta skrefið er að láta yfirmann og jafnvel samstarfsfólk vita um stöðuna.
Kulnun í starfi getur komið í kjölfar langvarandi streitu en einkennin breytast og við tekur vanvirkni, örmögnun og uppgjöf. Segja má að einstaklingur sé alveg búinn á því, í bókstaflegri merkingu.
Sá sem finnur fyrir kulnun hefur oft misst trú á að ástandið muni batna og að hann sé fær um að vinna sín verkefni.
Kulnun og þunglyndi
Ákveðin einkenni sem talin eru til einkenna kulnunar í starfi geta líka átt við um þunglyndi, svo sem örmögnun, depurð og minni afkastageta. Þarna er þó mikilvægur munur á, sá sem er með einkenni kulnunar getur fengið bót með ákveðinni fjarlægð frá starfi í nokkurn tíma. Sá sem er þunglyndur myndi ekki finna til léttis við að taka frí frá starfi, jafnvel þvert á móti. Sum einkenni kulnunar eru þó nátengd starfi og einstökum vandamálum þar. Þunglyndi er ekki bundið við starf heldur er óháð aðstæðum og nær yfir allt svið lífsins.
Skipulag á vinnustað
Margt bendir til þess að skipulag vinnu og stjórnun geti haft mikið að segja hvað varðar langvarandi streitu og kulnun. Athyglisvert er að langvarandi streita og kulnun tengjast ekki endilega vinnumagni, heldur frekar stjórnun og stuðningi, eðli starfs, skipulagi þess og ábyrgð. Það er til mikils að vinna fyrir alla að leita leiða til að fyrirbyggja ástandið. Einstaklingar sem finna fyrir sívaxandi streitueinkennum þurfa einnig að staldra við og skoða hvað þeir geta sjálfir gert til að snúa þróuninni við og hvað þeir þurfa aðstoð við.
Hvað höfum við lært?
VIRK, Embætti landlæknis og Vinnueftirlitið buðu upp á fund á netinu undir yfirskriftinni Kulnun – hvað höfum við lært sem nýtist okkur nú? í fundaröð um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.
Á fundinum hélt Dr. Christina Maslach sálfræðingur og prófessor (emerita) við Berkleyháskóla í Kaliforníu fróðlegt erindi um kulnun og vinnustaði sem hún nefndi Reinventing the workplace: Lessons learned from burnout. Linda Bára Lýðsdóttir, doktor í sálfræði og sviðsstjóri hjá VIRK, fór yfir stöðuna á Íslandi í byrjun fundarins í erindi sínu Hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna. Að neðan má lesa valda punkta úr erindum Maslach og Lindu.
Hér má finna upptöku af fundinum í heild sinni en fundarstjóri var Eysteinn Eyjólfsson verkefnastjóri hjá VIRK.
Hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna
Punktar úr erindi Lindu Báru Lýðsdóttur sem hún hélt á fundinum Kulnun – hvað höfum við lært sem nýtist okkur nú?
Hjálpaðu mér upp mér finnst ég vera að drukkna
Við vitum í raun ekkert um algengi kulnunar á Íslandi segir Linda Bára. Gerðar hafa verið nemarannsóknir innan nokkurra starfsstétta og notast við þýdd matstæki sem eiga að meta kulnun en þau hafa ekki verið próffræðilega skoðuð þannig að við getum ekki alhæft út frá þeim rannsóknum.
Við erum einnig að reyna að fást við hvað kulnun er í raun og veru, samkvæmt greiningakerfinu sem við notum er ekki um sjúkdóm að ræða. Mjög margar rannsóknar hafa verið gerðar á kulnun erlendis sem er áhugavert því ekki hefur verið samhljómur í skilgreiningum.
Spurt hefur verið hvort kulnun sé það sama og þunglyndi en við teljum að svo sé ekki segir Linda Bára. Vissulega geta þeir einstaklingar sem eru að kljást við kulnun fundið fyrir þunglyndi, þunglyndi getur verið afleiðing eins og það oft er, en rannsóknir hafa sýnt fram á að þegar við reynum að vinna bug á einkennum þunglyndis hjá einstaklingum sem hafa kulnað í starfi og við náum að draga úr einkennum þunglyndis þá eru önnur einkenni kulnunar enn til staðar þó einstaklingur sé ekki lengur þunglyndur sem segir okkur að kulnun og þunglyndi er sitthvort fyrirbrigðið.
- Örmögnun. Óeðlileg og hamlandi þreyta, lítið úthald, skortur á orku, einstaklingur fer í þrot, tilfinningaleg flatneskja, einstaklingur hefur lítið að bjóða öðrum, lítið frumkvæði.
- Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað. Neikvæð viðhorf gagnvart samstarfsfélögum og vinnunni, pirringur, tortryggni gagnvart einlægni og heiðarleika annarra, hæðni, skortur á hugsjón, aftenging, einangrun.
- Dvínandi persónulegur árangur. Neikvætt mat á eigin getu, óánægja með eigin árangur í starfi, erfiðleikar við að takast á við vandamál, slakari árangur, minni afköst.
Skilgreiningin skiptir máli því spurningin er hvað getum við gert til að aðstoða fólk sem kemur til okkar með kulnun? Boðið hefur verið upp á hugræna atferlismeðferð, slökun, jóga, núvitund og fleira og við sjáum vissulega árangur, það dregur úr einkennum. En þegar þessir einstaklingar sem telja sig vera búna að vinna bug á sínum vanda fara aftur í sitt starf þá líður ekki á löngu þar til þeir veikjast aftur, eða að einstaklingar sem koma til VIRK vegna kulnunar ná einhverjum framförum og ákveða að þeir ætli ekki að snúa til baka í sitt starf sem getur verið mikill skaði því þeir hafa menntað sig og hafa mikla reynslu og þekkingu á sínu sviði. Þeir tilheyra stéttum þar sem töluverður hluti er að falla út vegna kulnunar þannig að við erum að missa reynslu og þekkingu úr stéttum í dag, heilbrigðisstéttum, kennarastéttum o.fl.
Sköpum nýja vinnustaði - Christina Maslach
Um Dr. Christinu Maslach
- Langur vinnutími og miklar kröfur. Mikið að gera og ekki næg bjargráð til að vinna vinnuna.
- Lítið starfsöryggi og skortur á stjórn á því sem á að gera.
- Lítill félagslegur stuðningur og togstreita milli vinnu og einkalífs.
- Of miklar kröfur.
Of mikið að gera, of lítill tími og ónóg bjargráð til að gera það sem þarf að gera. Þetta spáir líklega best fyrir hvað varðar örmögnunarhluta kulnunar. En oft stoppar fólk þarna og telur að það þurfi aðeins að fást við þennan þátt - í raun þarf fleira að koma til. - Skortur á sjálfræði í starfi.
Starfsmaður hefur ekki mikið val, sveigjanleika eða stjórn á því hvernig starfið er unnið. - Skortur á viðurkenningu.
Þetta snýst um jákvæða endurgjöf og að fá viðeigandi viðurkenningu fyrir vel unnið verk. Þetta snýst ekki svo mikið um laun eða fríðindi heldur getur félagsleg viðurkenning verið mikilvægari, svo sem hrós, klapp á bakið og þakklæti. - Niðurbrot á samfélagi.
Þarna er átt við samskipti í vinnuumhverfinu, við samstarfsmenn, yfirmenn eða viðskiptavini. Fólk finnur fyrir skorti á félagslegum stuðningi á vinnustaðnum, telur sig ekki geta treyst öðrum, leyst úr ágreiningi eða unnið vel í teymum. - Skortur á sanngirni.
Þrátt fyrir að til séu reglur og stefnur í fyrirtækinu er ekki farið eftir þeim í raun og ekki sýnd sanngirni. Það snýst frekar um hvern þú þekkir en hvað þú gerir. Þarna getur verið mismunun í ráðningum og framgangi. Þessi þáttur getur haft áhrif á neikvæðni og tortryggni sem er einn þáttur kulnunar. - Togstreita gilda.
Þetta tengist tilganginum, að finnast starfið vera mikilvægt, skipta máli og vera í takt við eigin gildi. Ef upp kemur togstreita er það oft merki um að starfsmaður er ekki að gera það sem honum þykir rétt heldur það sem aðrir gera kröfu um, jafnvel þó það sé mögulega rangt eða ósiðlegt.
Dæminu má snúa við og kanna hvort hægt er að laga starfið að starfsmanninum (e. fitting the job to people) frekar en hið gagnstæða, að breyta þeim vinnuaðstæðum sem hafa neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmenn. Þetta er heldur ekkert nýtt segir Maslach, samanber líkan vinnuvistfræðinnar (e. ergonomics) sem skoðar samspil starfsmanna og starfsumhverfis og reynir að breyta umhverfinu með tilliti til mannslíkamans, t.d. að laga vinnuaðstöðuna til að koma í veg fyrir sinaskeiðabólgu eða að endurhanna flugstjórnarklefann til að minnka líkur á mistökum.
Nú þarf, út frá því sem við höfum lært um kulnun, að gera líkan fyrir félagslegt og sálfræðilegt starfsumhverfi. Hvernig getum við hannað störf betur til að styðja við fólk, hvað hvetur það áfram, hvað þykir því spennandi eða áhugavert og verður til þess að það vill prófa nýja hluti? Hvað fær það til að njóta vinnunnar og helga sig henni?
- Sjálfræði.
Tilfinning um að hafa eitthvað um málin að segja og hafa val og einhverja stjórn á því sem maður gerir. Geta notað hæfni á viðeigandi hátt. - Að tilheyra.
Hafa á tilfinningunni að vera hluti af stærri heild, fyrirtæki eða annarri skipulagsheild og að okkar framlag skipti máli. - Hæfni.
Tilfinning um að vita hvað við erum að gera, að við stöndum okkur vel og vitum hvert við eigum að leita ef spurningar vakna. - Sálfræðilegt öryggi.
Tilfinning um að að vinna í öruggu umhverfi þar sem ekki er einelti eða mismunun, óhætt er að spyrja spurninga og benda á eitthvað sem aflaga fer. Ekki hræðsla við að hafna yfirvinnu. - Sanngirni.
Fólk vill almennt að sanngirni ríki og að allir hafi jafna möguleika. - Merking.
Að menn finni að það sem þeir gera sé mikilvægt og skipti máli. Að fólk sé stolt af því sem það gerir. - Jákvæðar tilfinningar.
Fólk sækist eftir jákvæðum augnablikum í lífinu, að geta upplifað jákvæðar tilfinningar, að geta glaðst yfir einhverju sem gekk vel, að hlæja og fá viðurkenningu og að gera eitthvað fyrir aðra.
- Hæfilegt vinnuálag.
Hvernig getum við endurhannað vinnuálagið þannig að starfsmenn geti sinnt starfinu með góðu móti og náð að jafna sig á eftir? Huga að forgangsröðun, hvað er ónauðsynlegt og ekki hluti af kjarnastarfi viðkomandi. - Sjálfræði í starfi.
Hvernig er hægt að skapa meiri sveigjanleika svo fólk geti í ríkara mæli ráðið hvernig það vinnur starfið, a.m.k. á sumum sviðum? - Viðurkenning.
Félagsleg viðurkenning er mjög mikilvæg fyrir fólk, huga þarf að því hvernig koma megi þessu við. - Styðjandi samfélag.
Hvernig getum við unnið betur saman, hvernig getum við stutt aðra? Ef við erum ósammála hvernig vinnum við úr ágreiningi? - Sanngirni og réttlæti.
Það þarf að vera réttlátt kerfi sem fólk getur treyst og reitt sig á jafnvel þó það fái ekki allt sem það vill. - Skýr gildi og vinna sem hefur tilgang.
Hvers vegna erum við hér, hvað erum við að gera?
- Samvinna.
Nauðsynlegt er að ræða við starfsmenn um hvað á að gera, ekki koma inn „að ofan“ og setja af stað breytingar. Ef ekki fæst endurgjöf og stuðningur frá starfsfólki munu endurbætur ekki ganga upp. Án þess að ráðfæra sig og vinna saman er auðvelt að taka rangar og óskynsamlegar ákvarðanir. Gott er að leggja fram 5-10 tillögur og bera undir fólk - hvað myndi bæta ástandið? - Aðlögun.
Aðlaga þarf breytingar að menningunni á staðnum. Engin ein aðferð hentar öllum. - Skuldbinding.
Halda þarf áfram vinnunni við að ná fram jákvæðri útkomu. Það þarf að prófa, meta, endurskoða og reyna aftur. Ráðfæra sig aftur við starfsfólk og ekki gefast upp.