Fara í efni

Ný sýn á heilsu

Jákvæð heilsa og heilsuhjólið

Opinber skilgreining á heilsu hefur haldist óbreytt frá árinu 1948 þegar Alþjóða heilbrigðisstofnunin setti fram þá fullyrðingu að heilsa væri „fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.“
Á þeim tíma sem fullyrðingin var sett fram var helsta ógn heilsu fólks smitsjúkdómar og menn létu sig dreyma um að með tilkomu sýklayfja væri hægt að hugsa sér heim án sjúkdóma í framtíðinni. Raunin hefur því miður orðið önnur og helsta vá hins vestræna heims í dag eru langvarandi lífsstílssjúkdómar í stað smitsjúkdóma auk aukinnar tækni sem getur í sumum tilfellum ýtt undir sjúkdómsvæðingu.

Hvað eiga bláu svæðin sameiginlegt?

Geta til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum áskorunum.
Í Hollandi er verið að prufa nýja nálgun á heilsu út frá hugmyndafræði Machteld Huber sem er læknir og heimspekingur sem hefur helgað sig rannsóknum á nálgun á heilsu. Machteld kannaði hin svonefndu bláu svæði heimsins og hvað íbúar þar ættu sameiginlegt en um er að ræða Japan, Grikkland, Sardiníu og Kaliforníu.
Í ljós kom að fólk á þessum svæðum borðar mikið grænmeti og annað ferskmeti, hreyfir sig eðlilega í daglegu lífi, finnst það hafa tilgang í lífinu og er félagslega virkt.Einnig er mikilvægt að samfélagið styðji við heilsueflandi hegðun s.s. með því að hollur matur sé aðgengilegur, öruggar göngu- og hjólaleiðir séu til staðar, umhverfið sé örvandi og fallegt og styðji við félagsstarf.
Í framhaldi af sínum rannsóknum setti Machteld fram nýja skilgreiningu á heilbrigði sem er sú að heilsa sé getan til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu. Hún nefnir skilgreininguna Jákvæða heilsu (Positive Health) og telur mikilvægt að sjá hlutina í samhengi – vera við stjórnina og sjá tilganginn, ekki fara í fórnarlambshlutverkið. Nálgunin snýst um þrautseigju og það að vera sjálfur við stjórnvölinn.

Hin sex svið heilsu

Jákvæð heilsa Machteld skiptist í sex aðal svið heilsu sem sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Með því að fylla út í heilsuhjólið má fá nokkuð góða innsýn í það hvort líf okkar sé í góðu jafnvægi og hvort þörf sé á að vinna með eitthver svið. 

Hjólið er fyllt út á þann hátt að merkt er við á vefnum hvar við erum stödd fyrir hvert svið. Ef við værum í fullu jafnvægi með öll sviðin værum við að merkja alls staðar við ysta hringinn en það gerist hjá fæstum. Þegar búið er að merkja á hjólið stöðu okkar hvað varðar öll sviðin getum við skoðað hvaða svið okkur finnst við þurfa helst að vinna með og þá er mikilvægt að hafa í huga að við þurfum ekki endilega að vinna með það svið sem skora lægst heldur frekar það sem okkur finnst mest þörf á að bæta.

Í þessu sambandi má einnig benda á athyglisverða rannsókn sem Ingibjörg Ólafsdóttir, ráðgjafi VIRK vitnar til í fréttablaði Eflingar þar sem kemur í ljós að það að einbeita sér að einu sviði heilsuhjólsins og setja sér raunhæf markmið um litlar breytingar hefur þau áhrif að atriði tengd öðrum sviðum breytast í kjölfarið. Þannig hefur það að bæta til dæmis andlega eða líkamlega líðan jákvæð áhrif á félagsleg samskipti. Jákvæð heilsa leggur höfuð áherslu á að einstaklingar upplifi það að vera sjálfir við stjórnvölinn þegar kemur að ákvarðanatöku hvað varðar heilsutengd markmið.

Þó nokkrar heilsugæslustöðvar í Hollandi eru farnar að nýta sér heilsuhjólið í viðtölum og lofar sú vinna góðu. Áhuginn fyrir hugmyndafræðinni fer ört vaxandi og um að gera að máta sig við hjólið.

 

  • Lífshjólið Huber
Til að finna sviðin og undirflokkana í heilsuhjólinu gerðu Machteld og félagar eigindlega rannsókn með 140 þátttakendum úr völdum hópum sem hafa hagsmuna að gæta á sviði heilbrigðismála. Þetta voru fulltrúar starfsfólks, stefnumótunaraðila og stjórnenda í heilbrigðisþjónustu, sjúklingar, rannsakendur, almennir borgarar og fulltrúar tryggingafélaga. Þátttakendur voru spurðir hvaða þætti þeir teldu vera mælikvarða á heilsu. Út úr þessu komu 556 svör sem flokkuð voru í 32 flokka í nokkrum skrefum og út frá tilteknum forsendum. Til að staðsetja sig á hjólinu er gagnlegt að skoða hvaða flokkar/þættir liggja að baki hvaða sviði. Ef þú ert fullkomlega sammála öllum fullyrðingum á hverju sviði ertu yst á hjólinu en ef þú ert fullkomlega ósammála ertu innst.   
Sjá nánar í ritgerð Machteld Huber: Towards a new, dynamic concept of Health frá 2014). 

Líkamleg virkni

  • Læknisskoðun sýnir engar óeðlilegar niðurstöður.
  • Heilbrigt útlit (húðlitur, augnaráð, viðhorf).
  • Líkamleg geta í samræmi við aldur.
  • Er verkjalaus.
  • Er orkumikil/l.

Andleg vellíðan

  • Er andlega hæf/ur og get hugsað skýrt.
  • Er í góðu skapi, jákvæð/ur.
  • Er sjálfsörugg/ur.
  • Hef tök á lífi mínu.
  • Ræð við persónulegar aðstæður.

Tilgangur

  • Get fundið tilgang í lífinu.
  • Get gert hluti sem skipta máli.
  • Hef hugsjónir sem ég brenn fyrir.
  • Hef trú á framtíðinni.
  • Sætti mig við og er ánægð/ur með lífið.

Lífsgæði

  • Upplifi góð lífsgæði.
  • Er hamingjusamur/-söm megnið af tímanum.
  • Get notið lífsins.
  • Tel mig heilbrigða/n og hrausta/n.
  • Er að blómstra.
  • Finn fyrir lífsgleði.
  • Er í góðu jafnvægi.

Þátttaka

  • Get viðhaldið félagslegum tengslum.
  • Hef nægilegt stuðningsnet.
  • Er ekki einmana.
  • Er viðurkennd/ur í félagslega umhverfinu.
  • Tek þátt í samfélaginu.
  • Vinn við eitthvað sem telst mikilvægt (launað eða ólaunað).

Dagleg virkni

  • Get klætt mig og séð um eigið hreinlæti.
  • Get séð um heimilishaldið (t.d. eldað, þrifið, séð um fjármálin).
  • Get unnið (launuð eða ólaunuð störf).
  • Skil læknisfræðilegar leiðbeiningar og fer eftir þeim (heilsulæsi).

Viðtal við Machteld Huber