Samskipti á vinnustað
Góð samskiptaráð
Góð samskiptaráð
-
Komdu fram við aðra af kurteisi og vinsemd.
-
Hvettu fólk til að tjá skoðanir sínar og hugmyndir.
-
Hlustaðu á hvað fólk er að segja áður en þú segir þína skoðun. Ekki stoppa fólk eða tala yfir það.
-
Nýttu hugmyndir sem samstarfsfólk kemur með um betrumbætur eins og kostur er og láttu vita hver átti heiðurinn af hugmyndinni
- Ræddu beint við samstarfsfólk í stað þess að láta aðra flytja boð á milli. Á sama hátt ættirðu að hafna því að vera milliliður milli aðila sem vilja síður ræða beint saman.
-
Forðastu að móðga aðra og gera lítið úr hugmyndum fólks.
-
Ekki festast í gagnrýni á smáatriði og dæma aðra.
-
Vertu meðvitaður um látbragð þitt, næmt fólk þarf ekki að heyra rödd þína eða það sem þú segir til að draga sínar ályktanir.
-
Komdu fram við alla á sama hátt, óháð kyni, aldri, trú eða uppruna og reyndu að láta sem flesta koma að ákvörðunum sem snerta starf þeirra.
-
Vertu meðvitaður um hvort einhver er útundan í samstarfi eða viðburðum.
-
Hrósaðu miklu oftar en þú gagnrýnir. Reyndu að hvetja til þess að samstarfsmenn geri það sama.
-
Vertu opinn fyrir gagnrýni og reyndu að læra af henni. Ef málefnið er þér mikilvægt og þú ert ósammála stattu þó á þínu.
-
Enginn er fullkominn og allir gera mistök. Æfðu þig í að viðurkenna eigin mistök og biðjast afsökunar. Í kjölfarið þarftu að spyrja hvernig þú getir lagfært hlutina.
- Hjálpaðu vinnufélögum að ná sínum markmiðum og ekki reiðast ef samstarfsmaður eða yfirmaður gerir mistök. Hjálpaðu frekar til við að leysa verkefni á sem farsælastan hátt. Sýndu hjálpsemi og vinsemd.
- Gakktu út frá því að fólk ráði við verkefni sín og aðstæður. Þótt þú skiljir ekki hvers vegna eitthvað gerist seint eða á annan hátt en þú ert vanur, þá eru eflaust fyrir því gildar ástæður.
Tillitssemi er dyggð
-
Ekki hringja eða senda tölvupóst utan vinnutíma. Ef þú þarft að koma frá þér pósti veldu þá að hann verði ekki sendur fyrr en að morgni næsta vinnudags.
-
Ekki koma þínum verkefnum yfir á samstarfsmann án samráðs við hann.
-
Þótt þú sért fullur orku og áhuga fyrir verkefni er ekki þar með sagt að samstarfsmaður þinn sé reiðubúinn eða hafi tök á að vinna lengur eða af sama krafti og þú. Ekki gera ráð fyrir að svo sé.
-
Ef vinnufélaga er alltaf kalt en þér of heitt gerðu málamiðlun og reyndu sjálf/ur að leysa málið.
Samskiptavandi sem flestir þekkja
- Hlusta ekki nógu vel.
Þegar við eigum í samræðum við einhvern erum við ekki alltaf með fulla athygli. Við erum mögulega að kíkja á símann, horfa á sjónvarpið eða erum að hugsa um eitthvað allt annað. Þegar við erum ekki með virka hlustun er hætt við að viðmælanda okkar misbjóði en auk þess missum við af óyrtum vísbendingum og skiljum þá ekki fyllilega hvað viðkomandi er að segja. Til að forðast þetta borgar sig að veita viðmælanda 100% athygli með því að halda augnsambandi, spyrja spurninga og sýna áhuga. - Telja sig vita hvað viðmælandinn ætlar að segja.
Allir hafa lent í því að telja sig vita hvað fólk ætlar að segja áður en það lýkur máli sínu. Gallinn er sá að við getum þá misst af því sem viðkomandi segir í raun. Berum virðingu fyrir viðmælanda með því að vera forvitin og hlusta með athygli á það sem sagt er – í stað þess að spá fyrir um það. - Trufla þann sem hefur orðið.
Við höfum líklega öll truflað einhvern í miðri setningu einu sinni eða tvisvar. Þetta getur gerst fyrir slysni eða vegna þess að við erum svo spennt fyrir því sem við ætlum sjálf að segja og viljum koma því á framfæri áður en við gleymum því. Aðrir grípa mögulega fram í samræður til að sýna eins konar vald. Hver sem ástæðan er þá getur verið niðurlægjandi að láta grípa fram í fyrir sér eins og það sem maður segir skipti litlu máli. Mikilvægt er því að bera virðingu fyrir þeim sem talar og leyfa honum að ljúka því sem hann hefur fram að færa. - Nota „þú“ fullyrðingar.
Þegar við erum að ræða tilfinningar okkar þurfum við að eigna okkur þær í stað þess að leggja ábyrgðina á viðmælandann („þú gerðir þetta“ eða „þú gerðir þetta ekki“). Í stað þess að segja til dæmis „þú hringdir ekki aftur í mig“ segðu þá „ég var sár þegar þú hringdir ekki til baka“. Með því látum við vita hvernig okkur líður og viðmælandi fær ekki á tilfinninguna að verið sé að ráðast á hann. - Láta tilfinningar ráða svarinu.
Þegar við bregðumst við tilfinningalega erum við líklegri til að segja eitthvað sem við meinum ekki. Það borgar sig að melta málið aðeins og vanda sig við svarið. - Taka ekki menningarmun með í reikninginn.
Ef bakgrunnur fólks er ólíkur leggur það stundum misjafna merkingu í orðin og óyrt samskipti geta mögulega einnig misskilist. Því verður að taka tillit til breytileika í samskiptamáta til að móðga ekki viðmælandann. - Misskilja það sem sagt er.
Við misskiljum aðra líklega oftar en við höldum. Til að forðast það er best að halda fullri einbeitingu og endurorða það helsta sem sagt var til að fá staðfestingu á að rétt hafi verið tekið eftir. Við treystum mikið á stafræn samskipti og án þess að heyra raddblæ og fá óyrtar vísbendingar er auðvelt að misskilja. Stundum þarf að spyrja frekari spurninga til að vera viss um að skilja samskipti í tölvupósti og textaskilaboðum rétt. - Að fara í kringum hlutina.
Að vera óskýr og ræða hlutina óbeint skilar sjaldan árangri. Við getum ekki ætlast til að fólk lesi hugsanir okkar. Best er að koma sér beint að efninu í samræðum. - Ráðast á persónu í stað hegðunar.
Þegar við erum í uppnámi er auðvelt að segja hluti eins og: „þú ert asni“ í stað þess að ræða þá hegðun sem olli uppnáminu. - Forðast erfiðar samræður.
Þegar þarf að ræða erfiða hluti er tilhneiging til að forðast samtalið eða draga samræður á langinn áður en tæpt er á því viðkvæmasta, því sem ætla má að viðkomandi vilji ekki heyra. Sá sem er góður í samskiptum dregur ekki að taka samtalið eða forðast það enda gerir það oft illt verra til lengri tíma og spenna getur byggst upp.
Eitraðir samstarfsmenn
Í grein Abby Curnow-Chavez í Harvard Business Review er talað um algengustu og eitruðustu hegðunina:
- Baktala, gagnrýna, kenna öðrum um
- Slúðra, dreifa sögusögnum
- Samþykkja á fundum en fylgja ekki eftir
- Safna og sitja á upplýsingum
- Grafa undan öðrum
- Taka eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni teymis eða fyrirtækis
Til umhugsunar:
Er eitthvað sem fyrirtækin geta gert til að sporna við svona hegðun?
Væri hægt að nýta þessi atriði við gerð samskiptareglna, í fræðslu og við nýliðakynningar?
Eru stjórnendur meðvitaðir um hve mikil áhrif þessi hegðun hefur á starfsfólk og þar með velgengni fyrirtækisins?
Erum við sjálf sek um svona hegðun í hugsunarleysi eða vegna mikils álags?
Óþarfa dramatík og truflun.
Jákvæð orka og sköpunarkraftur sogast úr samstarfinu. Starfsmenn eyða dýrmætum tíma í að verja sig í stað þess að skapa, taka áhættu og ræða opinskátt um það sem kemur upp í hugann.
„Verðfelling“ teymis/verkefna.
Slæm hegðun starfsmanns getur litað allt teymið og verkefni þess og haft neikvæð áhrif út fyrir teymið. Aðrir starfsmenn og viðskiptavinir telja ólíklegra að hópur sem vinnur illa saman geti skilað sama árangri og teymi sem vinnur í takt.
Grafið undan gildum leiðtogans og fyrirtækisins.
Það skapar tortryggni þegar fyrirtæki halda á lofti gildum og venjum en sumir komast upp með að virða þessi tilmæli að vettugi.
Skemmir liðsheild.
Aðrir starfsmenn teymisins byrja að endurspegla þessa slæmu hegðun, koma fram við starfsmanninn af virðingarleysi, stunda baktjaldamakk og halda upplýsingum frá honum.
En hvað getur þú gert ef viðkomandi er stjórnandi eins og þú? Greinarhöfundur telur að starfsmenn telji sig síður geta haft áhrif á hegðun þegar um jafningja er að ræða. Sumir neyðist til að hætta í teyminu eða segja upp ef ástandið er óbærilegt.
Ef þú ert stjórnandi teymis þar sem svona aðstæður hafa skapast er ljóst hvað þarf að gera. Það þarf að viðurkenna hvað er að gerast hjá hópnum og fara fram á breytta hegðun. Það er ekki hægt að þola framferði sem dregur alla aðra niður, jafnvel þó að sá sem eitrar út frá sér hafi marga kosti, skili til dæmis góðum afköstum, hafi tækniþekkingu, skarpa greind eða verðmæta reynslu.
Hér eru fjögur skref sem þú getur tekið til að takast á við eitraða hegðun:
- Ræddu við viðkomandi á opinskáan og heiðarlegan máta. Ef þú tekur ekki slaginn ertu í raun að viðhalda slæmu ástandi. Ekki er hægt að reikna með að einstaklingur vakni einn góðan veðurdag og breyti hegðun sinni án hvatningar. Láttu vita hvaða áhrif hegðunin hefur á þig og fáðu endurgjöf á þína eigin hegðun. Stundum áttar fólk sig ekki á hve mikil áhrif það hefur með breytni sinni. Þeir sem vinna í teymum þar sem eitruð samskipti eiga sér stað eru mun ólíklegri til að veita öðrum hreinskilna endurgjöf en þar sem samskiptin eru góð.
- Gættu að eigin hegðun og forðastu að leika sama leik. Vertu fyrirmynd fyrir aðra í teyminu og einbeittu þér að markmiðum vinnunnar. Setjið fram sameiginleg viðmið sem styðja samvinnu og opin tjáskipti. Þeir sem eru í eitruðum teymum eru ólíklegri til að hafa áhuga á velgengni annarra í hópnum og eru síður líklegir til að vinna að og viðhalda trausti innan hópsins.
- Talaðu við yfirmann þinn. Leggðu til að haldinn verði fundur til að stilla upp viðmiðum fyrir teymið og ræða erfiða hegðun og ágreining. Fundurinn ætti ekki að vera tylliástæða til að taka tiltekinn starfsmann á teppið heldur ættu að fara fram opinskáar umræður um ásættanlega hegðun og ábyrgð ásamt því að kynna ólík sjónarmið innan hópsins. Í eitruðum teymum er almennt ólíklegra að starfsmenn hafi viðmið um hegðun eða taki strax á óviðeigandi hegðun.
- Að lokum, passaðu upp á þig. Ekki láta eitraða hegðun annarra hafa áhrif á heilsu þína. Gerðu það sem þú getur en gefðu frá þér það sem þú getur ekki haft áhrif á og gerðu breytingar ef þú þarft. Leitaðu ráða hjá mannauðsstjóra eða öðrum sem þú treystir. Ef ekkert gengur þarftu að íhuga hvort þú þarft að hugsa þér til hreyfings.
Það er ljóst að fyrirtæki skaðast af eitruðum samskiptum. Oft verður vandinn svo þungbær að reynt er að takast á við hann en það krefst orku, hugrekkis og þrautseigju að endurbyggja sambönd og þróa nýjar venjur.
Hér á síðunni er stutt umfjöllun um samskiptasamninga sem sífellt fleiri fyrirtæki koma sér upp og gætu gagnast í þessu sambandi. Greinin Óskráðar reglur í fyrirtækjum er almenns eðlis en gæti gefið hugmynd um hvernig koma má viðmiðum og gildum fyrirtækisins á framfæri. Einnig má hér finna góð samskiptaráð, grein um algengan samskiptavanda og umfjöllun um einelti og áreitni.
Erfiðir "viðskiptavinir"
1. Haltu ró þinni og sýndu kurteisi. Ef þú lendir í erfiðum aðstæðum þar sem viðskiptavinur hellir sér yfir þig eða er ógnandi á einhvern hátt er mikilvægt að þú haldir ró þinni. Það getur hjálpað að hugsa að nú þurfir þú að bregðast við af fagmennsku, anda rólega nokkrum sinnum til að gefa þér tóm til að ná áttum og meta stöðuna.
Ef þú þarft að svara erfiðum einstaklingi í tölvupósti eða á samfélagsmiðlum reyndu að standast þá freistingu að svara hranalega. Andaðu rólega og reyndu að ná fjarlægð áður en þú svarar. Þá getur verið gott að bíða nokkra stund til að ná utan um eigin tilfinningar. Haltu þig við staðreyndir málsins í svarinu og lýstu vilja til að aðstoða.
2. Ekki svara í sömu mynt. Ekki rífast eða þræta við viðskiptavininn. Það eru eðlileg varnarviðbrögð að svara fyrir sig þegar einhver talar til manns af virðingarleysi. En til að gera stöðuna ekki verri er mikilvægt að forðast slíkt.
3. Hlustaðu. Leyfðu viðskiptavininum að koma erindi sínu á framfæri og spurðu hann opinna spurninga. Hlustaðu vel og notaðu þagnir til að sýna að þú hlustar, ekki grípa fram í. Sýndu að þú hafir meðtekið það sem hann er að segja með því að umorða eða endurtaka það af og til t.d. með „Ef ég skil rétt þá áttu við að . . .“ eða „Ég heyri að þú ert ósáttur með . . . “.
Þannig sýnirðu að þú sért að meðtaka það sem sagt er og hefur um leið róandi áhrif. Eins getur það orðið til þess að viðskiptavinur átti sig betur á hvers hann er að krefjast og að það sé hugsanlega ekki alveg réttlátt eða viðeigandi.
4. Sýndu sveigjanleika og leystu málið. Sýndu sveigjanleika innan ásættanlegra marka. Hafi mistök verið gerð reyndu þá að finna einfalda og hraðvirka lausn. Fylgdu þeim verkferlum sem fyrirtækið hefur sett eða þeim lögum sem þú starfar eftir. Sé ekki um mistök að ræða getur verið góð leið að láta einstaklinginn taka þátt í lausn vandamálsins. Þú gætir þá spurt hvað hann myndi telja ásættanlega lausn. Með því móti hefurðu eitthvað áþreifanlegt til að vinna með.
5. Sýndu samkennd. Ef þú hefur fengið yfir þig dembu fúkyrða gæti það lægt öldurnar að segjast skilja að viðkomandi sé í uppnámi og að þér þyki leitt að viðkomandi upplifi þjónustuna á þennan neikvæða hátt.
6. Ekki taka þessu persónulega. Oftast eru erfiðir viðskiptavinir óánægðir með vöru eða þjónustu og þú í þeirri stöðu að vera hálfgert skotmark fyrir gremju þeirra og erfiðar tilfinningar. Í stað þess að taka yfirganginn til þín reyndu að setja þig í þeirra spor og útskýra af yfirvegun þær reglur sem þú starfar eftir.
7. Gættu að líkamstjáningu og raddbeitingu. Hugaðu að því að sýna afslappaða líkamsstöðu með því að hafa hendur niður með síðum, opna lófa, og halla lítillega fram í átt að einstaklingnum. Forðastu að krossleggja hendur eða gera þig breiðan. Þú ættir að halda eðlilegu augnsambandi til að sýna vinsemd og opið hugarfar.
Ef þú ert í síma eða fjarsambandi þá kemur þú vinsemd og vilja til þjónustu á framfæri með raddbeitingunni. Talaðu rólega og yfirvegað í mildum tón. Forðastu að hækka röddina en reyndu frekar að draga úr raddstyrk. Brostu þegar þú vilt sýna vinsemd, það heyrist á röddinni.
8. Útskýrðu mál þitt af yfirvegun. Stundum þarftu að koma ákveðnum skýringum á framfæri. Ef viðskiptavinurinn endurtekur sömu hlutina í sífellu þarftu að sýna öryggi og útskýra þær reglur sem þér ber að fylgja, ekki síst ef viðskiptavinurinn fer með rangt mál eða biður þig að ganga gegn reglum fyrirtækisins. Mikilvægt er þó að hafa í huga að forðast þrætur.
9. Vísaðu annað þegar það á við. Þegar þú getur ekki leyst úr málinu sýnir þú einstaklingum virðingu og áhuga með því að vísa honum til annarra aðila sem gætu mögulega aðstoðað. Hann fer þá sáttari úr samtalinu og finnst að þú hafir reynt að aðstoða eftir megni.
10. Tryggðu öryggi þitt, viðskiptavinarins og annarra. Þegar aðstæður gætu ógnað öryggi skaltu umfram allt tryggja öryggi þitt, viðskiptavinarins og annarra viðskiptavina og/eða starfsfólks.
Komdu þér upp öruggum vinnuaðstæðum með því að staðsetja þig þannig að þú sért nær útgöngu en viðskiptavinurinn og gættu þess að þar séu ekki hlutir sem hægt er að nota sem vopn. Kallaðu eftir aðstoð ef þarf eða farðu af vettvangi.
Vinnustaðir geta sett upp áætlun um hvernig skuli bregðast við þegar hætta gæti stafað af viðskiptavini eða farið í nauðsynlegar aðgerðir s.s. með öryggishnöppum, vöktun og/eða viðveru annars starfsfólks.
Ef einstaklingur hótar að skaða sjálfan sig eða taka líf sitt ætti að ráðleggja honum af mildi að leita til bráðamóttöku geðsviðs eða til síns læknis. Gott getur verið að umorða eða endurtaka það sem sagt var s.s. „(Nafn), ég heyri að þú talar um að . . . “ áður en ráð eru gefin. Það getur virkað vel að byrja á að ávarpa hann með nafni og tala í mildum tón. Einnig má benda á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og Pieta samtökin, sími: 552 2218, www.pieta.is. Í einstaka tilvikum getur verið viðeigandi að gera lögreglu viðvart, bæði hvað varðar hegðun og hótanir.
Eftirköst erfiðrar hegðunar
-
Rude Customers á Mindtools.com.
-
Agressive, angry or violent behaviour á Comorbidity Guidelines.
-
Vefsíðu Píetasamtakanna.
-
Reynslu starfsfólks og stjórnenda úr atvinnulífinu.
Mistúlkun - Virkjum góð samskipti
Ertu nokkuð að ofhugsa?
Álag - Virkjum góð samskipti
Það eru ekki allir dagar geggjaðir
Metingur - Virkjum góð samskipti
Þarft þú alltaf að toppa þann næsta?
Í gegnum þann þriðja - Virkjum góð samskipti
Talar þú í gegnum aðra?
Skýr skilaboð
Það skiptir máli að við vitum til hvers er ætlast af okkur. Skýr skilaboð eru forsenda vellíðunar á vinnustað. Vinnum saman að jafnvægi.
Samskipti
Stundum þurfum við bara að segja hvað er að angra okkur. Upphátt. Góð samskipti eru forsenda vellíðunar á vinnustað. Vinnum saman að jafnvægi.
Fleiri myndbönd
Skýr skilaboð
Mikilvægt er einnig að starfsmenn fái strax góðar upplýsingar um stefnu fyrirtækisins í einstaka málum, svo þeir geti nýtt þá vitneskju við úrlausn verkefna. Ef stefna fyrirtækisins er t.d. sú að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér þá auðveldar það fyrstu viðbrögð í afgreiðslu og þjónustu til muna.
Afleitt er að lenda í aðstæðum þar sem tveir eða fleiri stjórnendur hafa mismunandi sýn á verkefnin og eru ósammála um forgangsröðun. Starfsmaður verður þá að stíga fram við fyrsta tækifæri og óska eftir skýrum fyrirmælum. Það ætti svo að vera forgangsmál stjórnenda að koma sér saman um réttu leiðina og upplýsa starfsmanninn.