Þættir sem stuðla að heilbrigðum vinnustað
Við kynnum hér þá sex þætti sem þurfa að vera til staðar á heilsusamlegum vinnustað samkvæmt Dr. Christina Maslach, prófessor við Berkeley háskóla í Kaliforníu, en alþjóða heilbrigðisstofnunin byggir skilgreiningu á kulnun sem vinnustaðavanda á kenningum hennar. Hér má lesa meira um kenningar Christina Maslach og hér má sjá grein byggða á fyrirlestri sem hún hélt á morgunfundi í samstarfi um Heilsueflandi vinnustað í maí 2020. Fjöldi annarra rannsókna sýnir einnig mikilvægi þessara grunnþátta.
Athyglisvert er að átta sig á að fleira hefur áhrif á streitu en vinnuálag svo sem sjálfræði í starfi, viðurkenning fyrir unnin störf, samfélagið á vinnustaðnum, sanngirni og réttlæti á vinnustað ásamt því hvernig gildi stafsmanns og vinnustaðar fara saman og þá um leið hvort starfsmanni finnist framlag hans hafa tilgang. Fjallað er nánar um þessar grunnforsendur hér að neðan.
Stjórnendahjólið
Stjórnendahjólið sem gefið er út af VIRK sýnir þessar sex grunnforsendur að heilbrigðum vinnustað samkvæmt Dr. Christina Maslach og úrskýrir um hvað þær snúast.
Grunnforsendurnar eru:
- Hæfilegt vinnuálag
- Sjálfræði í starfi
- Viðurkenning
- Styðjandi samfélag
- Sanngirni & réttlæti
- Gildi & tilgangur
Frekari upplýsingar hér að neðan. Hægt er að nálgast Stjórnendahjólið í afgreiðslu VIRK í Borgartúni 18.
Hæfilegt vinnuálag
- Gæta þess að kröfur og úrræði séu í jafnvægi.
- Samræmi sé milli verkefna og vinnutíma.
- Huga að mannaflaþörf.
- Styðja við sjálfræði og sveigjanleika.
- Virða jafnvægi vinnu og einkalífs.
Endurheimt
Draga úr hættu á kulnun
Tími starfsfólks er dýrmætur og skiptist í vinnu, svefn og einkatíma. Tíminn utan vinnu er lífið sjálft og skiptir fólk svo miklu máli. Þetta er tíminn sem það ver með fjölskyldu, vinum og kunningjum eða sinnir erindum, eldar matinn, tekur þátt í allskonar, fer á tónleika, sinnir áhugamálum, iðkar íþróttir, fer í ræktina, ferðast og svo framvegis.
Með störfum sem hægt er að vinna hvar og hvenær sem er - á kaffihúsinu, heima eða á ferðinni - hefur vinnan flætt inn á þennan einkatíma sem öllum er svo mikilvægur. Þegar fólki tekst að gera skýr mörk og vaðveita einkatímann sinn þá farnast því betur. Huga þarf alveg sérstaklega að skipulagi hjá alþjóðlegum fyrirtækjum sem starfa á ólíkum tímabeltum því hjá þeim hafa mörkin um afmarkaðan vinnutíma raskast svo mikið að setja þarf sameiginlegar reglur um til hvers sé ætlast af starfsfólkinu.
Sjálfræði í starfi
- Stuðla að trausti og sálfræðilegu öryggi.
- Veita frelsi til að taka ákvarðanir og leysa úr verkefnum eftir því sem hægt er.
- Koma auga á og nýta færni starfsfólks.
- Huga að sveigjanleika í starfi.
Viðurkenning
- Hrósa með rökum fyrir vel unnin störf.
- Eiga samráð við starfsfólk um viðburði og viðurkenningar.
- Veita teymum viðurkenningar frekar en einstaklingum.
- Gæta þess að starfsfólk hafi verkefni við hæfi sem stuðla að innri viðurkenningu.
Styðjandi samfélag
- Tryggja uppbyggileg og styðjandi samskipti sem byggja á gagnkvæmri virðingu.
- Fylgja lögum um einelti og áreitni.
- Vera góð fyrirmynd í starfsháttum og samskiptum.
- Gæta þess að verkferlar og hlutverk séu skýr.
- Skapa menningu þar sem allir eru velkomnir.
Sanngirni & réttlæti
- Skapa vinnustaðamenningu sem byggir á trausti og virðingu.
- Skoða hvort ákvarðanir innan vinnustaðar séu réttlátar og gagnsæjar.
- Huga að aðkomu starfsfólks að skipulagi og gerð ferla.
- Hafa í huga ólíkar þarfir starfsfólks.
Gildi & tilgangur
- Gæta þess að starfsfólk átti sig á mikilvægi framlags síns svo það finni tilgang með störfum sínum.
- Gæta þess að verkefni starfsfólks falli sem best að gildum þeirra.
- Huga að því að yfirlýst gildi endurspegli starfsemi vinnustaðar.
Gildi
Tilgangur
Byggt á kenningum Christina Maslach sem koma m.a. fram í nýjustu bók hennar og Michael Leiter; „The Burnout Challenge“. Bókina má jafnframt nálgast á Storytell.