Útivera og gjafir náttúrunnar
Að rækta garðinn sinn
Við tengjum garðvinnu yfirleitt við ræktarlegan gróður og væna uppskeru, en hugsum síður út í heilsufarslegt gildi vinnunnar sjálfrar. Garðrækt hefur margháttuð jákvæð áhrif á líf okkar, við fáum mikilvæga og fjölbreytta hreyfingu, styrkjumst, öndum að okkur fersku lofti, lifum í núinu um stund, reynum á minni okkar og kunnáttu, fáum útrás fyrir sköpunargleði og uppskerum oft ríkulega, hvort sem við erum að rækta grænmeti eða fegra umhverfið. Það er eitthvað sérstakt við að sjá plöntur vaxa og dafna.
Í samantekt frá árinu 2016 voru skoðaðar um 20 rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum garðræktar á fólk. Höfundar álykta að henni fylgi margvíslegir heilsufarslegir kostir. Það eru tengsl milli garðræktar og almennrar ánægju með lífið, hún bætir þrek og léttir skap, eykur andlega vellíðan og eflir hugræna virkni. Hún dregur úr streitu, þunglyndi, kvíðaeinkennum og þreytu. Með aukinni hreyfingu eykst almennur styrkur og fólk á auðveldara með að létta sig og sporna gegn vandamálum sem tengjast lífsstíl.
- Bein tenging við náttúruna gerir okkur gott. Svo virðist sem við náum að jafna okkur á andlegri þreytu og eigum auðveldara með einbeitingu eftir að hafa notið hennar.
- Hreyfingin sem nauðsynleg er í garðvinnu hefur víðtæk jákvæð áhrif á okkur og bætir andlega og líkamlega heilsu.
- Félagsleg tengsl geta styrkst. Stundum vinnur fjölskyldan saman og tengsl geta skapast ef menn eru með matjurtagarð, stunda skógrækt eða vinna á sameignarlóðum. Margir eiga líka í óbeinum samskiptum við aðra í áhugahópum um garðrækt, t.d. á samfélagsmiðlum.
- Óbein áhrif eru svo mögulega hollt mataræði ef ræktaðar eru matjurtir.
Skógarböð
Jákvæð áhrif skógarbaða samkvæmt rannsóknum eru:
-
Efla ónæmiskerfið
-
Minnka blóðþrýsting
-
Draga úr streitu
-
Létta lund
-
Auka einbeitingu - einnig hjá börnum með ADHD
-
Hraða bata eftir skurðaðgerðir eða veikindi
-
Auka orku
-
Bæta svefn
Þeir sem stunda skógarböð daglega geta að auki gert sér vonir um:
-
Aukið innsæi
-
Aukið orkuflæði
-
Aukna færni í að nálgast náttúruna og fjölbreytileika hennar
-
Aukið flæði lífs-kraftsins
-
Nánari vináttu
-
Aukna hamingju