Starfsþróun
Hver ert þú?
Stefnan tekin
Áhugaverð störf
Nám og námskeið
Námsframboð
Nám á netinu
Námsstyrkir
Námi þarf ekki að fylgja mikill kostnaður og eru sum námskeiðanna á netinu ókeypis, en til að mæta kostnaði vegna náms gætir þú kynnt þér styrki frá stéttarfélaginu þínu. Flest stéttarfélög bjóða upp á styrki vegna starfstengdra námskeiða og náms, tómstundanáms og jafnvel ferðakostnaðar sem tengist námi.
Ákvarðanataka
Við eigum stundum erfitt með að taka ákvarðanir og veltum oft hlutunum fyrir okkur fram og til baka, fyllumst jafnvel kvíða yfir að ná ekki að ákveða einföldustu hluti. Hér finnur þú nokkrar hugmyndir sem þú gætir nýtt þér til að auðvelda ákvarðanatöku.
Jákvæð óvissa
Þegar þú ætlar að velja á milli tveggja leiða sem þér líst vel á getur verið gott að tileinka sér jákvæðni gagnvart óvissuþáttum og þora að taka þá áhættu að velja aðra leiðina umfram hina. Það auðveldar ákvarðanatökuna að líta svo á að þó þú veljir aðra leiðina þá sért þú ekki að útiloka hina.
Segjum sem svo að þú sért að velta fyrir þér hvort þú ættir að skella þér í námið sem þig hefur lengi langað í, eða hvort þú ættir að taka að þér verkefni hjá íþróttafélaginu sem gæti gefið þér færi á að styrkja stöðu þína, en getur bara ekki valið á milli. Þá ert þú í sömu stöðu og svo margir lenda í sem standa frammi fyrir tveimur álíka spennandi valkostum. Þeir geta þá ekki valið og það verður til þess að þeir gera ekki neitt. En ef þú hugsar betur út í þetta þá sérðu að aðgerðaleysið kemur í veg fyrir að þú haldir áfram og gerir góða hluti fyrir þig. Það er nefnilega ekkert að óttast ef báðar leiðir eru áhugaverðar. Þú einfaldlega velur aðra leiðina umfram hina og munt ekki sjá eftir því þar sem báðar leiðir eru álíka spennandi fyrir þig. Síðar meir gætir þú svo alltaf bætt við þig leiðinni sem þú valdir ekki ef áhugi er enn fyrir hend. Hafir þú valið að fara í nám gætir þú tekið þá menntun og reynslu með þér inn í íþróttahreyfinguna eða ef þú hefðir valið að fara í verkefnið hjá íþróttafélaginu þá gætir þú bætt menntuninni við þig seinna og tengt þetta allt saman.
Velja milli tveggja leiða
Ein leið til að takast á við erfitt val er að bera markvisst saman valkosti. Ef þú stendur til dæmis frammi fyrir því að velja milli tveggja leiða gætir þú sett upp kosti og galla til að reyna að finna lausn. Þú gætir notað þessa aðferð til að velja milli tveggja starfa eða að velja að taka starfi sem býðst eða bíða eftir gamla starfinu þínu. Þessi leið er líka bara almennt góð þegar velja þarf milli tveggja kosta.
Velja milli nokkurra leiða
Þegar þú þarft hins vegar að velja milli nokkurra valkosta getur verið gott að nota aðferð sem hér kallast Velja milli starfa. Þessi aðferð við að velja milli leiða gefur þér færi á að setja niður fyrir þér hvað þér finnst eftirsóknarvert og að máta síðan valkostina við það sem þú sækist eftir.
Þessi aðferð er að sjálfsögðu ekki bundin við að velja á milli starfa. Þú getur notað hana við aðrar ákvarðanir svo sem um búsetu eða áhugamál.
Eigin rekstur
Áhugasamir gætu líkað viljað kynna sér Gulleggið sem er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups og tilvalinn vettvangur fyrir frumkvöðla og aðra hugmyndasmiði sem eru að stíga sín fyrstu skref. Einnig gæti nýsköpunarvikan vakið áhuga þinn.
Sveitarfélög um land allt bjóða jafnframt einstaklingum og fyrirtækjum á sínu svæði upp á ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningarmála.
Sért þú með viðskiptahugmynd sem þig langar að skoða betur gætir þú haft samband og fengið aðstoð og upplýsingar um til að mynda:
- gerð rekstraráætlunar
- styrki
- stofnun fyrirtækja
- markaðssetningu
Þá gætu konur með áhugaverðar viðskiptahugmyndir haft áhuga á að kynna sér nýsköpunarhraðal AWE fyrir konur sem Háskóli Íslands stendur fyrir í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Hægt er að sækja um þátttöku einu sinni á ári og þjónustan sem boðið er upp á samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um.
Einnig gætu áhugasamar konur kynnt sér styrkjamöguleika hjá Atvinnumálum kvenna og Svanna lánatryggingasjóði kvenna.