Vellíðan er orð sem vekur hjá okkur tilfinningar um að hafa það þægilegt, vera hamingjusöm og líða almennt vel. Það sem veldur einum vellíðan veldur ekki endilega öðrum vellíðan og þó að okkur líði best þegar við erum við góða heilsu getum við samt sem áður notið vellíðunar þó við séum að glíma við einhverja kvilla. Vellíðan tengist því líka að upplifa að við ráðum við þær áskoranir sem felast í daglegu lífi okkar og að við náum að halda jafnvægi á milli þeirra ólíku hlutverka sem við gegnum. Hlutverka á borð við að vera starfsmaður, að vera maki, að vera foreldri, að vera barn fullorðins foreldris, að vera vinur og svona mætti lengi telja.
Þó deilt sé um hvort peningar tengist hamingju eður ei þá er staðreyndin samt sú að ef við erum í þeirri stöðu að eiga í erfiðleikum með að ná endum saman getur það valdið mikilli vanlíðan. Hægt er að fá aðstoð við fjármálin hjá öllum bönkum og einnig hjá Umboðsmanni skuldara sem veitir aðstoð fyrir alla sem telja sig eiga í skulda- eða greiðsluerfiðleikum. Óvissan er oft verst og fyrsta skrefið til að vinna á fjárhagsáhyggjum er að gera sér grein fyrir stöðunni og kanna hvaða leiðir séu færar.