Fara í efni

Tímamót

Jólin 2024

„Er líða fer að jólum og hátíð fer í hönd..."
Jólin eru tími gleði og eftirvæntingar hjá flestum og tengjast dýrmætum minningum úr æsku. Aðdragandi þeirra er oftast ljúfur, en þau eru jafnframt býsna stór viðburður og krefjast undirbúnings. Foreldrar með ung börn hafa mikið á sinni könnu, sérstök dagskrá tengd skólanum, föndur, bakstur og aðstoð við jólasveininn svo nokkuð sé nefnt.

En það er ekki nóg að sinna gjafainnkaupum, hreingerningu, skreytingum og flókinni matargerð á heimilinu, heldur er óvenju mikið um að vera í félagslífinu, margir fara á tónleika eða aðra listviðburði, í heimsóknir og hlaðborð með vinum, eða útbúa konfekt og laufabrauð með stórfjölskyldunni. Jólin teygja sig líka inn á flesta vinnustaði, það þarf að skreyta, kaupa leynivinagjafir og skrítnar peysur, sækja jólahlaðborð og aðrar uppákomur. 

Flest af ofangreindu er skemmtilegt og gefandi, en oft verður þetta aðeins of mikið og við finnum fyrir streitu sem stigmagnast fram yfir jóladag. 

Hér er nokkuð ráð sem gætu komið að gagni fyrir jólin.

Búðu til lista

Listi er mikilvægur til að ná yfirsýn og öðlast hugarró. Gott er að byrja á listanum snemma þegar allt er enn spennandi og þú hlakkar til. Merktu við hver gerir hvað og láttu viðkomandi vita. Þú munt eflaust ekki ná að gera allt á listanum og það er í góðu lagi.

Forgangsraðaðu

Þegar listinn er svo að segja klár renndu yfir hann og reyndu að forgangsraða og grisja. Þarf allt þetta meðlæti með steikinni, þarf að þrífa allt í hólf og gólf? Hvað má bíða fram yfir áramót?

Fáðu hjálp

Oft safnast verkefni upp hjá þeim sem skipuleggur og er með lengsta listann. Virkjaðu aðra heimilismenn til að aðstoða. Það er sjálfsagt að dreifa verkefnum og flestir hafa gaman af undirbúningi jóla í hæfilegu magni.

Skipuleggið í sameiningu

Það er gott og gagnlegt að fjölskyldan ræði saman um undirbúning fyrir jólin. Hvað á að vera í matinn, hugmyndir að gjöfum og hvaða jólamyndir á að horfa á (enn einu sinni!). Ræðið líka ef gera þarf breytingar á hefðum, það er merkilegt hvað margir eru vanafastir á jólum og því er gott að láta vita með fyrirvara ef bregða á út af vananum.

Settu þér fjárhagsramma

Það er aldrei jafn auðvelt að falla fyrir freistingum og á þessum tíma og því er það skynsamlegasta sem þú gerir að setja þér ramma fyrir útgjöld. Miðaðu við ákveðna upphæð í gjafir fyrir hvern og einn. Það gæti tekið aðeins lengri tíma að finna eitthvað sniðugt fyrir lægri upphæð, en oft verða gjafirnar persónulegri og meiri hugsun á bak við. Sumar fjölskyldur ákveða að gefa aðeins börnum og ungmennum í stórfjölskyldunni og fleiri sparnaðarráð má nota. Ef þú hefur áhyggjur af fjárhagnum í tengslum við jólin má finna góð ráð á vef Umboðsmanns skuldara varðandi útgjöld um hátíðarnar og þar má einnig finna skjalið Áhyggjulaus jól til að gera áætlun.  

Stilltu væntingum í hóf

Þegar við hefjum undirbúning erum við óþarflega bjartsýn, við ætlum að hafa allt klárt, mála, þrífa eins og fagmenn og prófa allar uppskriftirnar sem við erum búin að safna. Allar gjafir verða úthugsaðar og allir í góðu skapi, sem sagt hin fullkomnu jól! Því miður gengur þetta sjaldnast þannig fyrir sig, við gleymum að taka með í reikninginn að við höfum sáralítinn tíma, allt mögulegt kemur upp á og við munum aldrei ná þessum markmiðum. Best er því að byrja á núllpunkti með væntingar – eða í það minnsta að hafa þær raunhæfar. Hjálpið börnunum að stilla sínum væntingum í hóf. Útskýrið t.d. fyrir þeim af hverju ekki er hægt að kaupa dýrustu gjafirnar - þau eru oft mjög skilningsrík.

Skapaðu rólegar stundir

Mikilvægt er að skapa rólegar stundir í aðdraganda jóla til að vinna gegn því áreiti sem dynur á okkur á þessum árstíma. Slökktu á síma, sjónvarpi og útvarpi þegar þú kemur heim og reyndu að ná áttum. Njóttu þess að hafa þögn eins lengi eins og þú mögulega getur. Farðu út og viðraðu þig, það skilar sér í meiri orku og jákvæðni.

Gerðu góðverk

Það er vel þess virði að bæta því á listann að gera eitthvað jákvætt fyrir þá sem eiga um sárt að binda. Þekkirðu einhvern sem er einn eða á erfitt yfir jólin? Gætirðu boðið þig fram í sjálfboðavinnu í nokkra tíma, keypt jólakort af góðgerðarsamtökum eða lagt þeim lið á annan hátt? Sýnt hefur verið fram á að með því að gera góðverk ertu ekki aðeins að láta gott af þér leiða, heldurðu bætirðu eigin líðan og dregur úr streitu. Fáðu krakkana í lið með þér og sýndu þeim hve gefandi er að aðstoða aðra. Hér eru nokkrar hugmyndir að góðverkum

Hátíð barnanna

Mikilvægt er að huga fyrst og fremst að börnunum og þeirra upplifun í kringum jólin. Það er eitthvað við hátíðina sem gerir það að verkum að minningar henni tengdar greypast í hugann, oft dásamlegar, en því miður einnig slæmar. Nokkur okkar finna til kvíða þegar jólin nálgast sem magnast upp í því jólavafstri og auglýsingaflóði sem nær útilokað er að komast hjá. Besta gjöfin til barnanna er tími, hlýja og óskipt athygli.

Hreyfing og næring 

Reyndu að hreyfa þig reglulega og borðaðu skynsamlega. Þetta getur reynst erfitt á aðventunni, en þú færð aukna orku og vinnur gegn áhrifum streitunnar ef þú heldur þínu striki hvað þetta varðar.

Leiktu þér og hlæðu

Dansaðu við fjörugt lag ef þú ákveður að baka eða þrífa. Fáðu krakkana til að dansa með og taka þátt í verkunum. Reynið að finna eitthvað sniðugt og fyndið til að gera saman, grípið í spil eða farið í göngutúr. Leitaðu uppi gamanefni í sjónvarpinu, lestu sniðuga bók og biddu krakkana um að segja þér brandara eða rifja upp kostuleg atvik. Ekki taka þig of alvarlega og reyndu að hafa gaman af lífinu!

 

Hér er jólaauglýsing VIRK sem minnir okkur á að stundum náum við ekki að gera allt.
Gleðileg jól!
 

Svefn

Hreyfing

Stoðkerfið

Streita. Er brjálað að gera?

Andleg líðan

Dagatöl

Náttúrukort